Rashford, Isak, Trossard, Martinelli, Osimhen, Adeyemi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 28. febrúar 2025 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Lógískt og gott skref fyrir Róbert Frosta - „Einstakur miðjumaður"
Mynd: GAIS
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Róbert Frosti Þorkelsson var fyrr á þessu ári keyptur til sænska félagsins GAIS frá Stjörnunni. Róbert Frosti er unglingalandsliðsmaður sem lék sinn fyrsta leik með U21 landsliðinu í nóvember.

Hann er fæddur árið 2005 og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki árið 2022. Tímabilið 2023 kom hann við sögu í 23 af 27 leikjum Stjörnunnar og síðasta sumar kom hann við sögu í öllum deildarleikjunum og var í byrjunarliðinu í 20 af þeim. Hann byrjaði þá alla fjóra Evrópuleiki Stjörnunnar síðasta sumar.

Fótbolti.net ræddi við Jökul Elísabetarson, þjálfara Stjörnunnar, í vikunni og var hann spurður út í Róbert Frosta.

„Mér líst ógeðslega vel á að Róbert Frosti hafi tekið þetta skref, hann átti frábært tímabil í fyrra, var í risahlutverki hjá okkur og spilaði nánast hverja einustu mínútu þar til rétt í lokin. Ég held að þetta sé gott skref fyrir hann miðað við hvað ég heyri um klúbbinn og á hvaða stað félagið er. Ég held að þetta sé bara lógískt og gott skref fyrir hann. Vonandi reynist það bara rétt, ég vona að hann nái aðeins að láta að sér kveða á þessu tímabili og svo eykst það örugglega þegar líður á. Ég er mjög spenntur að sjá hvað Róbert Frosti gerir þarna," segir Jökull.

Róbert Frosti spilaði talsvert á kantinum hjá Stjörnunni en rætt hefur verið um að hann sé betri miðjumaður en kantmaður. Hver er að þínu mati hans besta staða?

„Hann er einstakur (e. unique) miðjumaður, hann er ekki einstakur kantmaður. Hann er samt sterkur kantmaður og sterkur í báðum stöðum. Ég held að á endanum verði hann inn á miðjunni."

„Við vorum með aðra miðjumenn sem hentuðu kannski ekki eins vel á kantinn. Það voru helst hann og Helgi Fróði sem fúnkeruðu betur á köntunum og voru því meira þar. Ég held að Róbert Frosti endi á miðjunnni, finnst hann vera einstakur þar; með sköpunargáfu sem ekkert margir eru með og erfitt að eiga við hann. Hann er mjög óútreiknanlegur; einn óútreiknanlegasti leikmaður sem ég hef séð."

„Það er gaman að sjá hvað hann getur spunnið á staðnum, upp úr engu. Hann er ótrúlegur og ótrúlega skemmtilegur karakter líka. Ég held að það sé frábær fengur fyrir GAIS að fá hann inn í hópinn og í liðið. Ég held að hann verði skemmtilegur og vonandi spilar þjálfarinn honum á miðjunni,"
segir Jökull.
Athugasemdir
banner
banner