
Þórsarar mæta til leiks í Lengjudeildina með sóknarmann frá Suður-Kóreu, Je-wook Woo.
Woo hefur leikið í Suður-Kóreu og í Ástralíu, og mætir hann núna til Íslands. Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs, starfaði í Hong Kong áður en hann tók við á Akureyri og nýtti sér tengsl sín í Asíu til að fá sóknarmanninn til landsins.
Farið var yfir Lengjudeildina í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær og þar var rætt um að þarna sé á ferðinni mögulega besti leikmaður deildarinnar.
„Þeir þjálfarar sem spiluðu við Þór á undirbúningstímabilinu, það er einróma álit að Je-wook Woo sé besti leikmaðurinn í þessari deild," sagði Tómas Þór Þórðarson.
„Þjálfarar eru að tala um að þetta sé besti leikmaður sem þeir hafi séð í Lengjudeildarliði í langan tíma."
„Ef það er þannig - og með Harley Willard með sér - þá er ýmislegt í boði fram á við... en það er spurning hvernig staðan verður til baka," sagði Rafn Markus Vilbergsson í þættinum.
„Je-wook Woo, þetta er mest spennandi leikmaður deildarinnar," sagði Elvar Geir Magnússon.
Hægt er að hlusta á alla umræðuna í spilaranum fyrir neðan.
Athugasemdir