Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 04. nóvember 2022 13:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hvaða skilaboð? - Engin svör fengist hingað til
Borghildur Sigurðardóttir og Vanda Sigurgeirsdóttir.
Borghildur Sigurðardóttir og Vanda Sigurgeirsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland spilar við Sádí-Arabíu á sunnudaginn í vináttulandsleik.
Ísland spilar við Sádí-Arabíu á sunnudaginn í vináttulandsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska karlalandsliðið er þessa stundina statt í Dúbaí fyrir vináttulandsleikinn umdeilda gegn Sádí-Arabíu á sunnudaginn.

Sjá einnig:
Mikill meirihluti á móti vináttulandsleiknum gegn Sádí-Arabíu

Það hefur verið talsvert gagnrýnt að KSÍ hafi samþykkt að spila vináttuleik við Sáda í ljósi mikilla mannréttindabrota í landinu.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, talaði um það þegar leikurinn var samþykktur að KSÍ ætlaði að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri. „Ég skil alveg spurningarnar. En við höfum trú á að samtalið og samræðan geti skilað ennþá meiri árangri. Að nota fótboltann sem verkfæri til félagslegra breytinga. Við ætlum að nýta tækifærið í haust til að koma alls konar skilaboðum á framfæri og ég trúi því að það hafi meiri áhrif og mikil áhrif," sagði Vanda í samtali við RÚV.

„Við erum til dæmis með konu sem formann, konu sem varaformann, konu sem framkvæmdastjóra. Við getum mætt og tekið í höndina á þeim. Ég get haldið ræður og sent út skilaboð, við getum verið með skilaboð á vellinum og það er ýmislegt sem við getum gert og ætlum okkur að gera."

Hvaða skilaboð eru þetta? Hvað ætlar KSÍ að gera? Engar upplýsingar hafa borist um það hingað til.

Bent var á Vöndu fyrir svör um það og hefur undirritaður reynt að ná tali af henni - bæði í gegnum tölvupóst og síma - í dag og í gær. En hingað til hafa engin svör fengist um fyrirætlanir KSÍ varðandi það að koma einhvers konar skilaboðum áleiðis í kringum þennan leik.

Þess má geta að Borghildur Sigurðardóttir, varaformaður KSÍ, er með í för í Dúbaí fyrir hönd stjórnar KSÍ en ekki formaðurinn. Vanda komst ekki.

Hvað gengur á í Sádí-Arabíu?
Í morgun var ritaður pistill á Vísi þar sem farið var yfir það sem er í gangi í Sádí-Arabíu.

„Sádi-Arabía er gjarnan á meðal þeirra landa sem taka flesta af lífi á ári hverju, ásamt Kína, Íran og Egyptalandi... Á meðal glæpa sem geta kallað á dauðarefsingu í landinu fyrir utan morð, landráð og hryðjuverk eru eiturlyfjasmygl, framhjáhald, samkynhneigð og fjölkynngi (e. witchcraft). Þremur mismunandi aðferðum er beitt til að taka fólk af lífi í ríkinu; fólk er hálshöggvið, stillt upp framan við aftökusveitir eða grýtt til dauða," skrifar Valur Páll Eiríksson í pistli sínum.

„Þá eru auðvitað ótaldar pyntingar sem fólki er beitt, heft tjáningarfrelsi og víðtæk mismunun gegn konum." Einnig er vert að benda á morðið á fjölmiðlamanninum Jamal Khashoggi sem hefur verið bendlað við stjórnvöld í Sádí-Arabíu.

Valur kemur einnig inn á það að Ísland sé fyrsta Norðurlandaþjóðin til að spila við Sádí-Arabíu síðan 2006, og erum við að gera það sjálfviljug. Um leið erum við að hjálpa þeim í hvítþvætti sínum í gegnum íþróttir.

Sjá einnig:
Upphæðin sem KSÍ fær frá Sádum er trúnaðarmál
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner