Launakostnaður Williams yrði hár fyrir Arsenal - Lucca aðalskotmark Man Utd - Tottenham vill halda Kulusevski
banner
   fim 03. apríl 2025 20:45
Ívan Guðjón Baldursson
Framtíð Jamie Vardy óljós
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Framtíð Jamie Vardy er óljós en hann hefur verið einn af bestu leikmönnum Leicester City á tímabilinu þrátt fyrir að vera orðinn 38 ára gamall.

Vardy hefur komið að 11 mörkum með beinum hætti í 29 leikjum og rennur samningur hans við Leicester út í sumar.

Framherjinn reyndi er enn afar metnaðarfullur og vill spila á sem hæsta gæðastigi. Hann telur sig enn geta haft áhrif á því stigi en Leicester virðist vera að falla úr ensku úrvalsdeildinni.

Það er óljóst hvort Vardy ætli að halda tryggð við Leicester og spila áfram með liðinu í Championship deildinni á næstu leiktíð, eða reyna fyrir sér hjá öðru úrvalsdeildarfélagi áður en hann leggur skóna á hilluna.

Vardy hefur verið hjá Leicester í þrettán ár og vann ensku úrvalsdeildina með félaginu, eftir að hafa byrjað fótboltaferilinn með Stocksbridge Park Steels í utandeildinni sex árum fyrir félagaskiptin til Leicester.

Þegar rýnt er í tölfræðina kemur í ljós að Vardy hefur komið að 10 mörkum af þeim 25 sem Leicester hefur skorað í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og er því gríðarlega mikilvægur fyrir markaskorunina. Hann hefur verið að hlaupa 9,6km á leik að meðaltali, sem er svipað og hann hefur verið að gera síðustu fimm ár. Hann er hins vegar ekki að komast í jafn mikið af góðum færum og á fyrri árum en það eru ýmsir þættir sem geta haft áhrif þar.

Hann hefur í heildina skorað 198 mörk í 493 leikjum með Leicester.
Athugasemdir
banner
banner