Launakostnaður Williams yrði hár fyrir Arsenal - Lucca aðalskotmark Man Utd - Tottenham vill halda Kulusevski
banner
   fim 03. apríl 2025 21:06
Ívan Guðjón Baldursson
England: Enzo Fernández gerði sigurmarkið gegn Tottenham
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Chelsea 1 - 0 Tottenham
1-0 Enzo Fernandez ('50)

Chelsea tók á móti Tottenham í grannaslag í ensku úrvalsdeildinni og var staðan markalaus eftir nokkuð tíðindalítinn fyrri hálfleik, þar sem heimamenn í liði Chelsea fengu hættulegustu færin.

Nicolas Jackson setti boltann í stöngina strax í upphafi leiks og missti Cole Palmer af fríum skalla í dauðafæri. Það hitnaði svo aðeins í kolunum í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Trevoh Chalobah og Cristian Romero fengu sitthvort gula spjaldið fyrir sinn þátt í átökum sem spruttu upp eftir að Levi Colwill lét sig falla með dramatískum hætti eftir litla snertingu.

Í upphafi síðari hálfleiks klúðraði Enzo Fernández ekki sínum fría skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá Palmer. Staðan orðin 1-0 fyrir Chelsea og setti Moises Caicedo boltann í netið skömmu síðar efitr aukaspyrnu, en ekki dæmt mark eftir langa athugun í VAR-herberginu. Colwill var í rangstöðu.

Það færðist meiri hiti í leikinn því lengri tími sem leið og var Pape Matar Sarr í aðalhlutverki, þar sem hann lét sig fyrst falla til jarðar eftir litla sem enga snertingu og var heppinn að fá ekki gult spjald fyrir leikaraskap. Skömmu síðar skoraði hann laglegt mark sem var að lokum dæmt ógilt vegna hans eigins brots í aðdragandanum. Hann braut á Fernández og fékk gult spjald fyrir.

Tottenham reyndi að jafna leikinn í löngum uppbótartíma en tókst ekki að setja boltann í netið. Lokatölur 1-0 og afar dýrmæt stig fyrir Chelsea.

Chelsea er í fjórða sæti eftir sigurinn, með 52 stig eftir 30 umferðir - einu stigi fyrir ofan Manchester City og tveimur fyrir ofan Newcastle sem á leik til góða.

Tottenham er í neðri hlutanum með 34 stig þar sem gengi liðsins hefur ekki skánað eftir að hafa endurheimt lykilmenn úr meiðslum.
Athugasemdir
banner