Launakostnaður Williams yrði hár fyrir Arsenal - Lucca aðalskotmark Man Utd - Tottenham vill halda Kulusevski
banner
   fim 03. apríl 2025 19:20
Ívan Guðjón Baldursson
Noregur verður án lykilleikmanna gegn Íslandi
María Þórisdóttir er í hópnum
Mynd: EPA
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Ísland tekur á móti Noregi í Þjóðadeild kvenna á morgun og þurfa Stelpurnar okkar helst sigur eftir að hafa náð í eitt stig úr fyrstu tveimur umferðunum.

Það gæti hjálpað Stelpunum að ógnarsterkt lið Noregs verður án nokkurra lykilleikmanna, þar sem stjörnur á borð við Caroline Graham Hansen, Maren Mjelde og Guro Reiten verða ekki með.

Caroline Hansen er ein besta fótboltakona í heimi og leikur hún með stórveldi Barcelona. Hún var í öðru sæti í kjörinu um Ballon d'Or í fyrra og er í lykilhlutverkum bæði hjá Barca og norska landsliðinu.

Maren Mjelde er meðal leikjahæstu leikmanna í sögu norska kvennalandsliðsins þar sem hún á 178 leiki að baki. Hún leikur með Everton í enska boltanum og verður ekki með gegn Íslandi vegna meiðsla.

Guro Reiten er mikilvægur hlekkur í ógnarsterku liði Chelsea þar sem hún hefur verið í næstum því sex ár og staðið sig feykilega vel. Hún er einnig meidd og verður því ekki með.

Ada Hegerberg verður hins vegar með en hún er mikil markamaskína og lykilkona í gífurlega sterku liði Lyon.

Þar að auki verður hin hálfíslenska María Þórisdóttir með, en hún er 31 árs og leikur með Brighton.
Athugasemdir
banner
banner