
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Sex aðilar spáðu í spilin fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-12 eftir því hvar þeim var spáð. Efsta sætið hjá hverjum aðila fékk tólf stig og svo koll af kolli.
Spáin:
4. Vestri, 57 stig
5. Fjölnir, 42 stig
6. Þór, 42 stig
7. Grindavík, 37 stig
8. Selfoss, 30 stig
9. sæti Grótta, 26 stig
10. Afturelding, 21 stig
11. KV, 13 stig
12. Þróttur Vogum, 6 stig
Um liðið: Vestri heldur í mjög svipaðan hóp og liðið var með í fyrra þegar liðið náði í 36 stig og endaði í 5. sæti. Liðið tók sextán stig í fyrri hlutanum og tuttugu í seinni hlutanum.
Heimavöllurinn gaf þeim nítján stig en Vestramenn þurfa að fá nær þrjátíu stigunum til að eiga möguleika á að fara upp.
Þjálfarinn: Eyjamaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson (1982) tók við Vestra snemma í mars en þá hafði Vestri verið í þjálfaraleit í rúman mánuð eftir að Jón Þór Hauksson tók við ÍA.
Gunnar Heiðar, sem er fertugur, er fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður. Á síðasta ári þjálfaði hann lið KFS í þriðju deildinni og náði góðum árangri.
Álit sérfræðings
Rafn Markús og Úlfur Blandon eru sérfræðingar Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina í ár. Úlfur gefur sitt álit á Vestra.
„Metnaðurinn í kringum lið Vestra er algjörlega til fyrirmyndar, þeir ætla sér stóra hluti á hverju ári og vilja komast í deild þeirra bestu í ár eins og í fyrra."
„Það er alveg ljóst að ef liðið ætlar sér stóra hluti í sumar þarf varnarleikurinn að verða betri. Þeim vantar meiri stöðugleika í sinn leik og tengja saman fleiri sigra en tvo í röð."
„Vestri fer inn í tímabilið með svipað lið og í fyrra og hafa gert vel í því að halda í sína leikmenn. Eins og alltaf hefur undirbúningstímabilið verið slakt en það vita það allir sem fylgjast með fótbolta að það þýðir ekkert að lesa í leikina sem Vestri spilar þar, þeir mæta klárir í slaginn eins og sást í fyrra þar sem þeir byrja tímabilið á tveimur sterkum sigrum."
„Þeir eiga frekar þægilegt leikjaplan í byrjun móts á móti liðum sem er spáð í neðri hlutanum. Það verður spennandi að sjá hvað Gunnar Heiðar færir liðinu."
„Hann hefur mikla leikreynslu og fór vel af stað með lið KFS í fyrra. Það væri gaman að sjá lið Vestra blanda sér hressilega í toppbaráttuna og gera alvöru atlögu að sæti í efstu deild."
Lykilmenn: Elmar Atli Garðarson, Nicolaj Madsen og Pétur Bjarnason.
Fylgist með: Toby King
Mikil eftirvænting er eftir nýja Bretanum sem er mættur á Ísafjörð. Toby heitir maðurinn og er að komu úr ensku B-deildinni. King lék með WBA í deildabikarnum í vetur gegn Arsenal.
Komnir:
Christian Jimenez frá Spáni
Deniz Yaldir frá Svíþjóð
Ívar Breki Helgason frá Herði
Marvin Darri Steinarsson frá Víkingi Ó.
Guðmundur Páll Einarsson frá Herði
Silas Songani frá Simbabve
Toby King frá Englandi
Farnir:
Benedikt V. Warén í Breiðablik (var á láni)
Casper Gandrup
Diego Garcia Bravo til Spánar
Luke Rae í Gróttu
Sindri Snæfells Kristinsson hættur
Steven Van Dijk til Ástralíu
Fyrstu leikir Vestra:
7. maí gegn Gróttu á útivelli
14. maí gegn Aftureldingu á útivelli
21. maí gegn Þrótti V. á útivelli
Spámenn: Elvar Geir, Guðmundur Aðalsteinn, Rafn Markús, Sæbjörn Steinke, Tómas Þór og Úlfur Blandon.
Athugasemdir