Maurizio Sarri hefur verið án starfs síðan hann hætti sem þjálfari Lazio fyrir rétt tæpu ári síðan.
Hann segist enn hafa áhuga á að starfa í fótboltaheiminum, hann sé að bíða eftir réttu tækifæri. Síðustu misseri hafi hann hafnað starfstilboðum úr öllum heimshornum.
„Þetta hefur verið sérstaklega erfitt útaf fjölskyldumálum. Mér hafa borist mörg tilboð frá mismunandi heimsálfum en ég hef ekki ennþá verið nægilega hrifinn af neinu verkefni til að taka að mér.
„Ég sakna fótboltans, ég sakna þess alls nema félagaskiptaglugganna. Ég hef verið að greina leiki og Como hefur vakið áhuga minn. Við Cesc (Fábregas, þjálfari Como) höfum verið að bera saman bækur okkar."
Sarri hefur ekki áhuga á að taka við neinu smáu félagi. Hann vill fá stórt verkefni í hendurnar.
„Ég mun ekki færa mig um fet nema að ég hafi trú á verkefninu hjá næsta félagi. Þetta verður að vera stórt verkefni til að ég hafi áhuga."
Athugasemdir