Man Utd hefur áhuga á Son og Pavlovic - De Bruyne færist nær Bandaríkjunum - Ancelotti vill Branthwaite
   sun 23. febrúar 2025 11:44
Elvar Geir Magnússon
Skemmdarverk unnin á rútu Aftureldingar
Mynd: aftureldingknattspyrna
Nýliðar Aftureldingar í Bestu deildinni eru á leið í æfingaferð til Kanaríeyja en upphaf ferðalagsins hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Liðið gat ekki farið út á flugvöll með liðsrútu sinni þar sem skemmdarverk voru unnin á henni í nótt og þá varð frestun á fluginu vegna tæknilegra vandamála.

Búið var að brjóta rúður í rútunni, sem Afturelding hefur notað lengi, og seg­ir Magnús Már Einarsson, þjálfari liðsins, í samtali við mbl.is að erfitt verði að gera við þær. Rút­an er 40 ára göm­ul og hægara sagt en gert að finna nýj­ar rúður.

Leik­menn og starfs­menn þurftu að fara á sín­um bíl­um og einnig að ræsa út fjöl­skyldumeðlimi til að koma sér upp á flug­stöð.

Þar átti svo flugvélin að leggja í hann klukkan 8:55 og var liðið komið um borð þegar fluginu var frestað vegna tæknilegra vandamála.

„En allt kom fyrir ekki. Technical issue hjá Play og menn brosandi út að eyrum," stendur á Instagram síðu Aftureldingar þar sem menn sjást fara aftur inn í flugstöðina þar sem beðið er eftir því að flugvélin geti farið í loftið. Nú er áætlaður brottfarartími klukkan 13:00.
Athugasemdir
banner
banner
banner