Unai Emery var kátur eftir flottan endurkomusigur Aston Villa gegn Chelsea í gær.
Aston Villa lenti undir á heimavelli en kom til baka með tveimur mörkum til að sigra 2-1 og bæta stöðu sína í Meistaradeildarbaráttunni.
Marcus Rashford lagði bæði mörk heimamanna upp fyrir Marco Asensio, en þetta eru tveir leikmenn sem Villa sótti í janúarglugganum.
„Markmiðið er að vera meðal fimm eða sex efstu liða deildarinnar og til þess þurftum við að styrkja leikmannahópinn í janúar. Ég er mjög ánægður. Við viljum vera samkeppnishæfir í öllum keppnum og til þess þarf gæðamikinn og stóran leikmannahóp," sagði Emery þegar hann var spurður út í nýju mennina sem skópu sigurinn í gær.
„Áhrifin sem þeir höfðu í seinni hálfleiknum voru frábær. Þeir gerðu herslumuninn.
„Við styðjum við Marcus (Rashford), hjálpum honum í aðlögunarferlinu og að öðlast sjálfstraust, við viljum láta hans gæði passa við okkar leikstíl. Það er mikil vinna framundan í þessu ferli en hann sýndi það í dag að hann getur strax verið mikilvægur leikmaður fyrir okkur."
Morgan Rogers fór haltrandi af velli á 78. mínútu en Emery segir ekki um neitt alvarlegt að ræða.
„Morgan er að spila mikið af mínútum og hann höndlar þær ótrúlega vel líkamlega. Í dag var sparkað í hann og þá bað hann um skiptingu. Það er möguleiki að hann verði með á þriðjudaginn (gegn Crystal Palace)."
Athugasemdir