Roberto Mancini er að snúa aftur til síns fyrrum félags Sampdoria en þó ekki í stöðu þjálfara. Hann mun taka við sem tæknilegur stjórnandi.
Ítalska félagið Sampdoria, sem varð Ítalíumeistari tímabilið 1990-91, er óvænt í fallbaráttu í Serie B eftir afar slæmt gengi á undanförnum árum. Eigendur félagsins vilja ólmir snúa þessu gengi við og hafa því ráðið Mancini til starfa.
Mancini var partur af mögnuðum leikmannahópi sem vann ítölsku deildina. Hann sigraði ítalska bikarinn fjórum sinnum á fimmtán ára dvöl sinni hjá félaginu, auk þess að sigra gömlu Evrópudeildina 1990 og enda í öðru sæti í gömlu Meistaradeildinni 1992, eftir tap gegn Barcelona í úrslitaleiknum.
Mancini spilaði 36 A-landsleiki á ferlinum og kláraði hann sem leikmaður Lazio, áður en hann hóf frábæran þjálfaraferil. Hann stýrði Fiorentina, Lazio, Inter, Manchester City, Galatasaray og Zenit frá Sankti Pétursborg áður en hann tók við ítalska landsliðinu 2018 og vann Evrópumótið þremur árum síðar.
Hann starfaði síðast sem aðalþjálfari sádi-arabíska landsliðsins en hefur ákveðið að starfa meira bakvið tjöldin, enda orðinn 60 ára gamall.
Alberico Evani, annar fyrrum leikmaður félagsins, tekur við sem aðalþjálfari Sampdoria á meðan enn einn fyrrum leikmaður verður aðstoðarþjálfari hans. Sá heitir Attilio Lombardo og var aðstoðarþjálfari ítalska landsliðsins á EM 2020, sem fór fram ári of seint.
Athugasemdir