Newcastle vill Kean - Arsenal og Liverpool hafa áhuga á Eze - Modric gæti farið til Katar
   mán 07. apríl 2025 17:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ég held að við séum svolítið eftir á miðað við aðrar þjóðir"
Icelandair
Eftir leikinn gegn Noregi á dögunum.
Eftir leikinn gegn Noregi á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr stúkunni á Þróttaravelli.
Úr stúkunni á Þróttaravelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingibjörg Sigurðardóttir er fyrirliði í þessu verkefni.
Ingibjörg Sigurðardóttir er fyrirliði í þessu verkefni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér finnst þetta mjög fínn völlur og það var góð stemning. Maður heyrir vel í stuðningsmönnum þar sem stúkan er nálægt vellinum. Það myndast alltaf betri stemning þegar við erum á minni völlum. Það var mjög fínt að spila þarna," sagði Ingibjörg Sigurðardóttir, leikmaður landsliðsins, á fréttamannafundi í dag er hún var spurð út í það hvernig væri að spila á Þróttaravelli.

Ísland spilar á Þróttaravelli í þessu verkefni þar sem verið er að leggja á hybrid-gras á Laugardalsvöll.

Það var uppselt á leikinn gegn Noregi síðasta föstudag en það voru samt sem áður innan við 1000 manns á vellinum. Þegar fréttamannafundurinn fór fram í hádeginu í dag þá var ekki orðið uppselt á leikinn sem fer fram á morgun.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, var spurður út í það hvort áhuginn á liðinu hefði minnkað.

„Ég er ekki sammála því að það sé ekki áhugi, það er áhugi á liðinu. Það er annað hvort þú mætir á fótboltaleik eða ekki. Við finnum fyrir miklum áhuga í kringum allt sem við erum að gera. Leikmenn finna fyrir því," sagði Þorsteinn.

„Auðvitað myndum við alltaf vilja sjá fullt og allt það. Þú ert með fótboltalið sem er á meðal þeirra bestu í Evrópu og við eigum að vera stolt af því. Við eigum að sýna það í stuðningi með því að mæta á völlinn. Það er mín sýn á þetta en fólk ræður hvað það gerir. Það er mín sýn að ef við ætlum að kalla okkur íþróttaþjóð, þá eigum við að sýna það í verki. Liðið á það líka skilið. Þetta er mín skoðun og hún breytist ekki neitt. Ég myndi vilja sjá miklu fleira fólk á vellinum en ég finn að það er mikill stuðningur."

Ingibjörg var spurð út í það sama. „Við finnum fyrir miklum stuðningi utan vallar. Frá því sem ég hef heyrt þá eru margir að fara að mæta á EM í sumar. Fólk er örugglega með afsakanir fyrir því af hverju það mætir ekki á völlinn. Ég held að við séum svolítið eftir á miðað við aðrar þjóðir. Það eru ekki jafnmargir að mæta á völlinn."

„Það er miklu skemmtilegra að spila fyrir framan fulla stúku. Það er líka mikilvægt fyrir ungar stelpur að sjá að það er fullt af fólki að styðja við okkur, sýna ákveðið fordæmi fyrir þær. Það er mjög mikilvægt að fólk komi," sagði Ingibjörg jafnframt.

Verður áhuginn meiri þegar styttist enn frekar í EM?
Það er orðið frekar langt síðan Ísland tryggði sér sæti á EM í sumar en má ekki búast við því að áhuginn verði meiri þegar nær dregur móti?

„Það gerist alltaf að þetta fer stigvaxandi að einhverju leyti," sagði Þorsteinn. „Vonandi verður það svoleiðis. Það er líka okkar að sýna það í verki að við eigum góðan stuðning skilið. Við verðum að halda áfram að standa okkur og halda áfram að ná í góð úrslit. Við erum alltaf að spila í úrslitakeppni EM með því að vera í A-deild Þjóðadeildarinnar. Þetta er allt sömu lið og sami styrkleikaflokkur. Liðið hefur náð góðum árangri."

„Þegar EM nálgast og þegar við spilum á Laugardalsvelli 3. júní (gegn Frakklandi), þá sjáum við hvernig fólk lítur á þetta," sagði landsliðsþjálfarinn að lokum.

Ísland mætir Sviss klukkan 16:45 á morgun. Allir á völlinn!
Athugasemdir
banner