Newcastle vill Kean - Arsenal og Liverpool hafa áhuga á Eze - Modric gæti farið til Katar
   mán 07. apríl 2025 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Við ætlum að fokking vinna ykkur"
Icelandair
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Ingibjörg Sigurðardóttir.
Ingibjörg Sigurðardóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir fyrri leikinn gegn Sviss.
Eftir fyrri leikinn gegn Sviss.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikurinn á morgun er afar mikilvægur.
Leikurinn á morgun er afar mikilvægur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þurftirðu að henda í eina fyrirsögn þarna?'
'Þurftirðu að henda í eina fyrirsögn þarna?'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var létt yfir Þorsteini Halldórssyni, landsliðsþjálfara, og Ingibjörgu Sigurðardóttur, leikmanni landsliðsins, eru þau sátu fyrir svörum í aðdraganda leiksins gegn Sviss í Þjóðadeildinni á morgun.

Flautað verður til leiks klukkan 16:45 í Laugardalnum á morgun í afar mikilvægum leik. Það er í raun nauðsynlegt fyrir Ísland að taka þrjú stig til að eiga sem bestan möguleika á því að enda í einu af tveimur efstu sætum riðilsins og halda sér þannig í A-deild.

„Leikurinn á morgun er auðvitað gríðarlega mikilvægur upp á það að við náum markmiðum okkar sem er að vera í tveimur efstu sætunum. Við þurfum að ná í góð úrslit á morgun til að geta horft á það áfram. Við förum inn í þennan leik með því hugarfari til að vinna og ætlum að gera allt til þess," sagði Þorsteinn á fundinum.

Stelpurnar spiluðu gegn Noregi síðasta föstudag og var það virkilega góður leikur af hálfu liðsins, fyrir utan það að þeim tókst ekki að skora.

„Við áttum klárlega að vinna þennan leik. Við fengum alveg færi í það og áttum að geta klárað þetta, en við tökum það góða með okkur og förum með sjálfstraust inn í næsta leik," sagði Ingibjörg.

„Við spiluðum nógu góðan leik til að vinna. Við skoruðum bara ekki. Það er bara áfram gakk. Við verðum að halda áfram að byggja ofan á það sem við gerðum á föstudaginn," sagði Þorstein.

Getur endað með mikilli dramatík
Stelpurnar hafa spilað þrjá leiki í riðlinum og skorað tvö mörk, en þau komu bæði í 3-2 tapi gegn Frakklandi. Það var skotkeppni á æfingu í dag og var landsliðsþjálfarinn spurður að því hvort sú keppni hefði verið gerð til þess að bæta færanýtinguna.

„Þetta var bara týpísk skotkeppni sem er alltaf daginn fyrir leik. Þetta er hefð frá því sautjánhundruð og súrkál að það er alltaf skotkeppni daginn fyrir leik. Það eru alltaf læti í þessari skotkeppni og þetta getur endað með mikilli dramatík eins og áðan," sagði Þorsteinn og minnti svo fréttamenn á það að liðið hefði skorað tvisvar í Frakklandi.

„Ef mig minnir rétt, þá skoruðum við tvö mörk í Frakklandi. Auðvitað viljum við skora í öllum leikjum. Við förum í alla leiki til að vinna. Við þurfum líka að verjast og það er jákvætt að við fáum ekki mark á okkur. Það er hægt að horfa á þetta á alla vegu. En auðvitað förum við í alla leiki til að vinna og til að skora. Við gerðum alveg nóg til að skora á föstudag en þetta féll ekki með okkur. Það er bara áfram með þetta. Það þýðir ekki annað en að hugsa svoleiðis."

Varnarlega var íslenska liðið mjög sterkt gegn Noregi. Ingibjörg var með fyrirliðabandið í fjarveru Glódísar Perlu Viggósdóttur sem er meidd.

„Mér leið bara vel og ég held að okkur öllum hafi liðið vel. Við Guðrún (Arnarsdóttir) höfum þekkst frá því við vorum mjög ungar. Auðvitað söknum við Glódísar en við erum vanar að spila saman og þekkjum hvor aðra vel. Ég held að við höfum allar verið mjög öruggar. Það er gott að vera með breiddina," sagði Ingibjörg.

Markalaust í fyrri leiknum
Fyrri leikurinn gegn Sviss ytra var ekki sá skemmtilegast og endaði hann með markalausu jafntefli.

„Við getum alveg dregið ýmislegt úr fyrri leiknum gegn Sviss. Það var lokaður leikur og ekki mikið af færum. Við náðum ekki að sleppa beislinu af okkur sóknarlega. Við höfum verið að horfa í það og verið að reyna að finna það út fyrir leikmenn hverjar leiðirnar eru hugsanlega. Við erum búin að sjá einhverjar leiðir þar sem við eigum að geta skapað færi í. Við þurfum að sleppa af okkur beislinu en við þurfum líka að verast þær varnarlega. Þetta verður erfiður leikur og við þurfum að mæta af sama krafti og við gerðum á föstudaginn," sagði Þorsteinn.

Steini talaði um það á fundinum að Sviss væri öðruvísi en Noregur, þær væru ekki að fara að hápressa og væru mjög agaðar í sínum leik. Þær væru sterk liðsheild sem erfitt væri að brjóta niður.

Það eru allir leikmenn Íslands klárar í að spila á morgun, engin meiðsli hjá þeim sem eru í hópnum.

Þurftirðu að henda í eina fyrirsögn þarna?
Að lokum var Þorsteinn spurður út í það af svissneskum fréttamönnum hvernig væri að mæta Sviss tvisvar í Þjóðadeildinni og svo aftur á EM í sumar.

„Það eru sömu lið í A-deild Þjóðadeildarinnar og eru að spila á Evrópumótinu. Það eru fleiri svona stöður í öðrum riðlum. Þetta er bara partur af þessu. Þetta angrar mig ekki. Á EM er bara einn leikur og það er öðruvísi. Þetta er fótboltaleikur gegn Sviss og ég hugsa ekki um að það sé vandamál að við spilum þrjá leiki," sagði Þorsteinn og var hann svo í kjölfarið spurður að því hvort hann ætlaði sér að spara einhver trix fyrir EM í sumar.

„Við erum ekki að spara neitt fyrir EM. Við spilum bara þennan leik og reynum allt til að vinna. Svo gerum við það sama á EM; við ætlum að fokking vinna ykkur," sagði Þorsteinn á ensku.

„Þurftirðu að henda í eina fyrirsögn þarna?" spurði Ingibjörg svo að lokum og hló. En markmiðið er skýrt, það er að vinna Sviss á morgun og gera það svo líka á EM í sumar.
Athugasemdir
banner
banner