Nýliðar ÍBV þurftu að gera sér að góðu að halda heim á Heimaey stigalausir úr Víkinni eftir 2-0 tap gegn Víkingum fyrr i kvöld. Gestirnir úr Vestmannaeyjum sýndu þó klærnar í leiknum og létu lið Víkinga sannarlega hafa fyrir hlutunum. Þorlákur Árnason þjálfari ÍBV var því sáttur með margt í leik sinna manna í kvöld er hann mætti í viðtal við Fótbolta.net að leik loknum þó úrslitin hafi vissulega sviðið.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 0 ÍBV
„Í fyrri hálfleiknum voru Víkingarnir mun sterkari en sköpuðu sér ekki mikið af opnum færum og bara heilt yfir í leiknum vörðumst við mjög vel. Við áttum góða möguleika þegar þeir missa leikmann út af og það kom mér kannski á óvart hversu djúpt niður Víkingarnir fóru við það og lentu í vandræðum.“
Eyjamenn áttu eftir rauða spjaldið á Gylfa Þór Sigurðsson á 55.mínútu leiksins góðan kafla sem skilaði þó ekki marki. Hvað vantaði upp á að mati Láka?
„Mér til þess að klára það og setja mark á þá. Við vorum að spila upp að teig en svo var þetta aðeins of hægt og fyrirsjáanlegt sem eru einu vonbrigðin. En hugarfar leikmanna leikplanið og varnarleikur liðsins var bara mjög góður í dag.“
Víkingar að endingu refsuðu Eyjamönnum fyrir það að nýta ekki liðsmuninn og bættu við marki á 79.mínútu leiksins.
„Það er auðvelt að segja það að við ætlum að stoppa Víkingana og þetta er uppsett atriði. En þeir eru bara ótrúlega sterkir í uppsettum atriðum.“
Sagði Láki en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir