Óttast um krossbandið
Aron Elís Þrándarson leikmaður Víkinga þurfti að yfirgefa völlinn rétt fyrir hálfleik í 2-0 sigri Víkinga á ÍBV fyrr í kvöld. Aron fór í grasið og hélt um hnéð og þó hann hafi gengið óstuddur af velli voru nokkrar áhyggjur af því að um erfið meiðsli kynni að vera að ræða.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 0 ÍBV
„Ég veit ekki stöðuna nákvæmlega en við fáum að vita það betur þegar hann kemur úr myndatöku.“ Sagði Sölvi Geir Ottesen þjálfari Víkinga í samtali við Fótbolti.net að leik loknum í kvöld.
„Hann er að fara í myndatöku það er klárt mál. Þetta leit ekki vel út hvernig hann steig í fótinn. Auðvitað eru menn áhyggjufullir þegar það er eitthvað í hnénu og krossbandið það fyrsta sem menn vilja kíkja á hvort sé ekki í lagi.“
Aron Elís var meiðslum hrjáður á síðasta tímabili en hefur verið meiðslalaus á undirbúningstímabilinu og var að nálgast sitt besta form.
„Þetta er mikið áhyggjuefni því að Aron er búinn að vera flottur og haldast heill allt undirbúningstímabilið þannig að það er hrikaleg niðurstaða ef þetta er jafn alvarleg niðurstaða og menn halda.“
Athugasemdir