Newcastle vill Kean - Arsenal og Liverpool hafa áhuga á Eze - Modric gæti farið til Katar
   mán 07. apríl 2025 17:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ekki í höndum Valsara hvort Adam komi heim fyrir gluggalok
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Adam Ægir Pálsson var á dögunum orðaður við heimkomu í Val en hann er á láni hjá Novara á Ítalíu út tímabilið þar í landi. Félagaskiptaglugginn á Íslandi lokar 29. apríl og ef Adam á að geta spilað með Val fyrri hluta tímabils þarf hann að skipta yfir fyrir lok gluggans. Annars snýr hann heim eftir tímabilið á Ítalíu og fær leikheimild þegar sumarglugginn opnar í júlí.

Fótbolti.net ræddi við Björn Steinar Jónsson, formann fótboltadeildar Vals, í dag.

„Tímabilið á Ítalíu er ekki búið fyrr en eftir gluggalok hjá okkur, það er ekki samkomulag um neitt annað en að hann klári tímabilið á Ítalíu eins og staðan er núna," segir Björn Steinar.

„Hann hefur ekki verið að spila fótbolta að undanförnu og ég veit ekki hvort staðan hans geti breyst, en það er ekki í okkar höndum."

Er virkt samtal við Adam eða Novara varðandi mögulega heimkomu fyrir gluggalok?

„Hann er auðvitað leikmaður okkar og við fylgjumst með öllum okkar leikmönnum, við fylgjumst með hvort okkar leikmenn séu að spila og svo framvegis. Við höfum alveg kannað það, möguleiki sem við höfum pælt í en ekkert meira komið í ljós," segir Björn Steinar og nefnir að nýlega hafi orðið þjálfarabreyting hjá félaginu og spurning hvort það hafi áhrif á stöðu Adams.

Adam er 26 ára kantmaður sem samningsbundinn er Val út tímabilið 2026. Hann var fyrri hluta tímabilsins á láni hjá Perugia en skipti yfir til Novara í lok janúargluggans. Adam hefur komið við sögu í þremur leikjum með Novara en verið ónotaður varamaður í sjö lekjum, þar af síðustu fjórum. Lánssamningi hans fylgir forkaupsréttur. Um mánaðaðamótin tók Giuseppe Mascara við sem þjálfari Novara af Giacomo Gattuso. Mascara var áður þjálfari U19 liðs Novara.

Novara er sem stendur í 10. sæti A-riðils í ítölsku C-deildinni. 10. sætið er síðasta umspilssætið en 2.-10. sæti riðilsins fara í umspil um laust sæti í B-deildinni. Novara vann síðasta leik á laugardag, en eins og fyrr segir var Adam ónotaður varamaður í þeim leik.
Athugasemdir
banner