
Wout Weghorst framherji hollenska landsliðsins var svekktur með viðbrögð Lionel Messi þegar hann ætlaði að þakka honum fyrir leikinn í gær.
Messi vildi ekki taka í höndina á stóra Hollendingnum en Weghorst reyndi að kalla á Messi en Argentínumaðurinn sagði honum bara að þegja.
Sergio Aguero fyrrum landsliðsmaður Argentínu skarst í leikinn.
„Við vorum bara að fara inn í klefa þegar stóri gaurinn [Weghorst] byrjaði að kalla 'Hey, hey, Messi. Messi snéri sér við og sagði það sem hann sagði," segir Aguero.
„Ég spurði 'Af hverju ertu að tala svona við Messi?' Þá sagði hann við mig 'Ekki segja mér að þegja'. Það var hiti svo ég sagði bara 'Ok þetta er búið, farðu, taktu í höndina á mér og gangi þér vel."
Weghorst tjáði sig einnig um atvikið.
„Ég vildi taka í höndina á Messi, ég ber mikla virðingu fyrir honum sem fótboltamanni en hann lamdi höndina mína í burtu og vildi ekki tala við mig. Við berum ekki virðingu fyrir hvor öðrum sem eru mikil vonbrigði," sagði Weghorst.