
Cristiano Ronaldo er ekki í byrjunarliði Portúgal í öðrum leiknum í röð þegar liðið mætir Marokkó í 8 liða úrslitum á HM eftir skamma stund.
Staða Ronaldo var rædd í HM stofunni fyrir leikinn en Heimir Hallgrímsson vildi lítið ræða um hann.
„Þetta var miklu meiri liðsheild heldur en maður hefur séð, það er mikil orka og tími sem hefur farið í að ræða Ronaldo, ég vil ekki að við ræðum hann því liðið á ekki skilið að taka athyglina frá þeim sem voru að standa sig svona vel," sagði Heimir Hallgrímsson.
Er Ronaldo ekki í liðinu útaf frammistöðunni eða hegðuninni?
„Þetta er blanda af hvoru tveggja. Hann er vissulega ekki sami leikmaður og hann var fyrir nokkrum árum síðan. Hans aðferð að spila fótbolta, að vera upphaf og endir alls, hentar bara ekki lengur fyrir þennan hóp sem Portúgalar eru með. Það hefur hjálpað Santos að taka þessa taktísku ákvörðun hvernig Ronaldo hefur verið að bregðast við, t.d. að vera tekinn útaf," sagði Einar Örn Jónsson.
Miklu betri liðsframmistaða og betra flæði í sóknarleiknum án Ronaldo.
..Það voru 10 útileikmenn að sinna heildarvarnarvinnunni, ekki níu og einn sem fékk að gera það sem hann vildi. Mér fannst eins og leikmennirnir væru ekki að leita af þessum Ronaldo alltaf, það kom miklu meira flæði og frelsi í spilið. Þá þurftu líka fleiri að taka ábyrgð. Ég er viss um að það geti verið not fyrir hann í þessum leik því hann er enn fínn í fótbolta," sagði Óli Kristjáns.