
Dómarinn í leik Argentínu og Hollands var mikið í sviðsljósinu fyrri frammistöðu sína í leiknum en Lionel Messi og Emiliano Martinez komu m.a. fram og gagnrýndu hann í viðtali eftir leikinn.
Það var ljóst nokkuð snemma leiks að hann var búinn að missa stjórn á leiknum og á endanum veifaði hann gula spjaldinu 18 sinnum sem er met í leik á HM.
Það sauð endanlega upp úr á 88. mínútu leiksins eftir að Leandro Paredes leikmaður Argentínu negldi boltanum að varamönnum Hollands sem trylltust í kjölfarið.
15 leikmenn fengu spjald auk þess sem Lionel Scaloni þjálfari Argentínu og Walter Samuel einn af aðstöðarmönnum hans nældu sér einnig í spjald.
Wout Weghorst kom inn á undir lok leiksins og skoraði tvö mörk sem tryggðu Hollendingum í framlengingu en hann hann kom inn á með gult spjald á bakinu eftir að hafa misst stjórn á skapinu af bekknum undir lok fyrri hálfleiks.
Þá kom eitt rautt spjald en það fékk Denzel Dumfries eftir að Lautaro Martinez var búinn að tryggja Argentínumönnum sigurinn í vitaspyrnukeppninni.
Dómari leiksins var til umræðu í HM stofunni eftir leikinn þar sem Arnar Gunnlaugsson sagði að hann hafi greinilega ætlað sér að ná í spjaldametið.
„Ég er án gríns sammála Arnari, hann ætlaði sér í þetta met. Hann leitaði af hverri einustu snertingu, hverju einasta kalli og hrópi," sagði Gunnar Birgisson.