„Ég er hrikalega ánægður. Þetta var svaka sjokk í byrjun," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, eftir 2-1 sigur liðsins gegn FH í opnunarleik Bestu deildarinnar.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 1 FH
Víkingar eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar, en þeir lentu undir eftir 30 sekúndur.
„Við sýndum sannan karakter og komum til baka. Það var sviðsskrekkur, taugaspenna. Þetta snerist um sigur, við vorum allt í lagi en eigum töluvert inni."
„Það er extra pressa að koma inn sem Íslandsmeistarar og þú vilt sýna þig. Svo færðu högg í andlitið strax í byrjun eftir að hafa æft þig í átta mánuði. Þetta er högg, en mér fannst við koma sterkt til baka," sagði Arnar.
Ari Sigurpálsson og Helgi Guðjónsson gerðu mörk Víkinga í dag. „Þeir eru búnir að eiga sterkan vetur, eru fljótir og í góðu standi. Þeir eiga bara skilið að spila. Það sem ég fíla við Ara er að fyrsta snertingin hjá honum er alltaf í átt að marki. Helgi er einn af lykilmönnunum í okkar liði. Hann er hetja í Fossvogi eftir síðasta tímabil. Þeir fá allt mitt traust."
Helgi gerði sigurmarkið gegn KR í ótrúlegum leik undir lok síðasta tímabils og hann fer vel af stað á þessari leiktíð.
Hægt er að sjá allt viðtalið við Arnar í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir