Markadrottningin Harpa Þorsteinsdóttir stefnir ekki á endurkomu í fótboltann í sumar en hún er ólétt og á von á sínu þriðja barni. Harpa greindi frá þessu í nýjasta þættinum af Heimavellinum en hún segir að skórnir séu komnir upp á hillu hjá sér.
„Mér finnst mjög erfitt að segja að ég hafi lagt skóna á hilluna en ég get samt alveg sagt það. Ég er búinn að leggja skóna á hilluna en þeir eru ekki límdir þar. Ef mig langar einhverntímann aftur í fótbolta þá geri ég það," sagði Harpa í nýjasta þætti af Heimavellinum.
„Það er ekki það að mig langi ekki að spila fótbolta. Ég væri mikið til í að spla áfram og eins lengi og ég get. Launin og umhverfið bjóða kannski ekki alveg upp á það fyrir stelpur að vera 100% í fótbolta og með fjölskyldu. Það er pínu leiðinlegt en þetta er staðan og ég tek þessu verkefni líka fagnandi."
Harpa starfar sem hegðunarráðgjafi og verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg auk þess sem hún situr í bæjarstjórn í Garðabæ. Þriðja barnið kemur síðan í heiminn á þessu ári.
„Ef ég ætti að komast í gott form þá þyrfti ég að láta af einhverjum af þessum vinnum og fá laun," sagði Harpa.
Hin 33 ára gamla Harpa hefur skorað 181 mark í 252 leikjum í efstu deild á ferlinum en hún hefur ekkert spilað síðan hún sleit krossband síðla sumars 2018.
Harpa hefur lengst af á ferlinum spilað með Stjörnunni en hún hefur skorað nítján mörk í 67 landsleikjum á ferlinum.
Heimavöllurinn er í boði Dominos, Heklu og Vita ferða
Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Hörpu á Heimavellinum.
Athugasemdir