Patrik Johannesen hefur vakið athygli fyrir frammistöðu sína með Keflavík í Bestu deildinni í sumar. Hann er búinn að vera besti leikmaður í liði Keflavíkur sem hefur komið á óvart.
Patrik, sem er 27 ára sóknarsinnaður miðjumaður, kom hingað til lands fyrir tímabilið eftir að hafa spilað með Egersund í Noregi þar áður. Hann hefur lengst af leikið í Færeyjum á sínum ferli en hefur einnig leikið í neðri deildunum í Noregi.
Hann samdi við Keflavík fyrir leiktíðina og hefur leikið afskaplega vel. Færeyingurinn hefur skorað ellefu mörk í 21 leik í deild og bikar á tímabilinu.
„Ég hef notið þess mjög mikið að spila á Íslandi. Leikstíllinn virðist henta mér mjög vel og ég hef aðlagast landinu og fótboltanum vel," segir hann í samtali við Fótbolta.net.
„Ég held að allir hjá félaginu og í kringum félagið séu ánægð með það sem við höfum afrekað," segir Patrik en Keflavík er sem stendur í efsta sæti neðri hluta Bestu deildarinnar. „Sérfræðingar gáfu okkur engan möguleika fyrir tímabilið en við höfum sýnt það að við erum gott lið."
Breiðablik reyndi að kaupa hann
Umboðsmaður Patrik hafði samband við hann í janúar um áhuga frá Keflavík. Hann ákvað að stökkva á tækifærið og sér ekki eftir því; er þakklátur fyrir tíma sinn hér á landi.
„Umboðsmaðurinn hringdi bara í mig í janúar og sagði mér að Keflavík vildi fá mig. Ég var líka að tala við önnur félög, en mér leist vel á tækifærið að koma til Keflavíkur og ég tók það."
„Ég er ánægður með ákvörðunina því mér hefur liðið vel hér og þá hafa önnur félög - bæði á Íslandi og erlendis - tekið eftir mér og hvernig ég hef spilað. Ég er mjög ánægður með ákvörðunina. Ég býst við því af sjálfum mér að ég skori mörk og geri vel í leikjum. Mér finnst ég hafa gert það á tímabilinu."
Hann segist ekki vita það hvort hann muni koma aftur til Íslands á næsta ári. Hann er með samning við Keflavík út næstu leiktíð en áhuginn á honum er mikill. Fyrr í þessari viku var greint frá því að Breiðablik hefði gert tilboð í hann og þá hefur líka verið talað um áhuga Vals og KÍ Klaksvík í Færeyjum.
„Já, ég hef heyrt áhuga Breiðabliks, en ég hef ekki heyrt neitt um Val. Ég veit að Breiðablik gerði tilboð í mig sem var hafnað. Við sjáum hvað gerist, hvort félögin munu ná samkomulagi," segir Patrik en hann hefur áhuga á því að spila fyrir Kópavogsfélagið sem er búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Hann er að horfa í það að taka skref fram á við.
„Ég hef mikinn áhuga á að fara í Breiðablik því þeir eru eitt besta félagið á Íslandi í augnablikinu. Þeir spila frábæran fótbolta. Þeir spila leikstíl sem myndi henta mér vel. Ég er með samning fram á næsta ár og félögin verða að komast að samkomulagi."
Það hafa verið sögur á kreiki um fjárhagsvandræði hjá Keflavík en Patrik segist ekkert hafa tekið eftir því, hann hafi alltaf fengið borgað og er sáttur með það hvernig framkoman hefur suður með sjó.
Patrik er fyrrum leikmaður Klaksvík, sem er besta félagið í Færeyjum, og segir hann að dyrnar þar séu alltaf opnar.
„Ég og þjálfarinn í Klaksvík erum mjög nánir. Ég tala oft við hann. Ég veit að hann vill alltaf fá mig ef það er mögulegt. Dyrnar eru aldrei lokaðar."
Klaksvík væri örugglega í topp sex á Íslandi
Færeyski fótboltinn hefur verið á uppleið síðustu árin og telur Patrik að Klaksvík, sem eru Færeyjameistarar, yrðu í efri hlutanum í Bestu deildinni á Íslandi.
„Klaksvík væri örugglega í topp sex á Íslandi. Ég held að færeyska deildin sé aðeins taktískari. Það er mikið um opna leiki. Færeyski fótboltinn er að verða sterkari og sterkari. Klaksvík, sem er besta liðið, er að verða sterkara á hverju ári. Landsliðið hefur verið að standa sig mjög vel síðustu þrjú, fjögur árin. Fótboltinn er í stöðugri þróun."
Patrik er landsliðsmaður í Færeyjum og á að baki 18 A-landsleiki fyrir þjóð sína.
„Það er alltaf heiður að spila fyrir þjóð sína. Vonandi get ég gert það í mörg ár í viðbót. Það er alltaf gaman að hitta strákana, við erum allir mjög nánir."
Einn af bestu sigrunum í sögunni
Færeyjar unnu stórkostlegan sigur gegn Tyrklandi í Þjóðadeildinni í síðasta mánuði. Það var mikil gleði í Færeyjum með þann frábæra sigur en Tyrkirnir tóku hann ekki mjög alvarlega.
„Leikurinn gegn Tyrklandi var mjög skemmtilegur. Það var talað um slæmt veður í aðdraganda leiksins og veðurspáin var ekkert sérlega góð. En þegar við komum á völlinn þá var veðrið bara fínt. Strákarnir gáfu allt og við unnum. Það kom okkur ekki mikið á óvart því Tyrkirnir vildu ekki vera á vellinum. Við sáum það. Við fengum tilfinninguna strax. Þeir aflýstu æfingu deginum áður út af veðrinu. Þeir voru á vellinum í 20 mínútur eða eitthvað og fóru svo inn."
„Við vissum það strax að möguleikinn væri góður. Þetta er einn af okkar bestu sigrum, myndi segja topp þrír eða topp fimm. Sigurinn á móti Austurríki og sigrarnir tveir á móti Grikklandi voru svipaðir þessum myndi ég segja."
Ísland mjög svipað Færeyjum
Líkt og áður hefur komið fram þá lék Patrik í Færeyjum og í Noregi áður en hann kom til Íslands. Hann segir Ísland vera svipað Færeyjum en frekar ólíkt Noregi.
„Mér finnst Ísland öðruvísi en Noregur en mjög svipað Færeyjum. Það lítur allt mjög svipað út hér á Íslandi og í Færeyjum. Landið minnir mig mikið á heimili mitt. Fólkið hér er svipað fólkinu í Færeyjum, en Norðmenn eru aðeins öðruvísi," segir Patrik.
„Ég hef ekki alveg náð að læra íslenskuna nægilega vel enn. Við tölum bara ensku í klefanum. Ég þekki nokkur orð. Stundum get ég skilið smá því tungumálin eru frekar lík. Ég veit að Binni Hlöðvers - þegar hann var í Færeyjum - að þá lærði hann tungumálið strax. Ég hef ekki náð því fljótt eins og hann. Vonandi get ég lært tungumálið betur."
Það eru tveir leikir eftir af tímabilinu hjá Keflavík en liðið er fyrir löngu búið að tryggja sér áframhaldandi veru í deildinni. Það verður áhugavert að sjá hvað þessi öflugi Færeyingur gerir að tímabilinu loknu en áhuginn á honum er svo sannarlega til staðar.
Athugasemdir