Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu, var svekktur með 3-0 tapið gegn ÍA í Pepsi Max-deild karla í kvöld en hann er þó bjartsýnn og hefur mikla trú fyrir síðustu sjö leiki deildarinnar.
Lestu um leikinn: ÍA 3 - 0 Grótta
Grótta hefur aðeins unnið einn leik í deildinni í sumar en hefur hins vegar tekist að ná í fjögur jafntefli. Ljóst er að endaspretturinn verður þeim erfiður en liðið er átta stigum á eftir KA sem er í 10. sæti.
Skagamenn komust yfir á 26. mínútu og var staðan 1-0 í hálfleik en í þeim síðari voru gestirnir hættulegir og ansi nálægt því að jafna en boltinn vildi ekki inn. Þeir reyndu að keyra á ÍA undir lokin en var refsað með tveimur mörkum og lokatölur því 3-0.
„Svekkelsi við erfiðar aðstæður. Okkur fannst í hálfleiks að við ættum möguleika á að fá eitthvað út úr þessu og lítið að gerast í fyrri hálfleiknum. Við töldum okkur trú um að við ættum séns í seinni hálfleik og fáum dauðafæri á 70. mínútu og vantaði ákefð í að klára," sagði Ágúst við Fótbolta.net.
„Við héldum áfram í einhverjar þrjátíu mínútur í seinni til að fá eitthvað út úr leiknum en þá refsuðu þeir tvisvar með smá klaufaskap í okkur að gefa víti og svo smá inn í teignum sem gerir þeim kleift að skora annað markið og það gerir þetta mjög erfitt."
„Ég horfði á þetta þannig. Við vorum inn í leiknum þegar staðan var 1-0 og vantaði aðeins meira bit í okkar sóknarleik. Erfiðar aðstæður og með vindinn í bakið en við nýttum ekki þau upphlaup sem við fengum og því miður eru Skagamenn að skilja okkur eftir í botnbaráttunni með Fjölni og það er ekkert rosalega gaman."
Næsti leikur Gróttu er gegn KR á fimmtudaginn og er því afar erfitt verkefni framundan.
„Við erum að fara á Meistaravelli á fimmtudaginn á móti KR og það er ekki auðvelt verkefni eins og allir vita. Við þurftum fimm sigra í níu leikjum en við þurfum enn fimm sigra og þetta verður erfiðara og erfiðara en meðan við trúum á verkefnið þá reynum við að ná okkar markmiðum að halda okkur í deildinni," sagði hann ennfremur.
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir