Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, hefur framlengt sinn í Garðabænum og verður áfram hjá félaginu.
Þetta eru gleðifréttir miklar fyrir Stjörnuna því Anna María hefur verið algjör lykilmaður hjá félaginu síðustu árin. Hún spilaði stóra rullu í vörn liðsins í sumar er Stjarnan endaði í öðru sæti Bestu deildarinnar.
Stjarnan leikur í Meistaradeildinni á næstu leiktíð og ætlar Anna María auðvitað að taka þátt í því ævintýri.
„Ég er mjög ánægð með að hafa skrifað undir nýjan samning við uppeldisfélagið. Eftir árangursríkt og skemmtilegt tímabil er ég mjög spennt fyrir komandi sumri. Andinn í liðinu er frábær og við viljum gera enn betur á næsta ári. Það er hugsað vel um okkur leikmennina hér í Garðabænum og umgjörðin er frábær," sagði Anna María eftir að hún skrifaði undir.
Það verður áhugavert að sjá hvernig leikmannahópur Stjörnunnar verður á næstu leiktíð en tveir lykilmenn - Katrín Ásbjörnsdóttir og Jasmín Erla Ingadóttir - ákváðu að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi sínum og eru að skoða í kringum sig.
Athugasemdir