Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, var spurður út í brottrekstur Steven Gerrard frá Aston Villa á fréttamannafundi í morgun.
„Ég er handviss um að Steven Gerrard komi til baka eftir þetta. Við áttum nokkur orðaskipti í morgun en fórum ekkert djúpt í neitt. Ég get ímyndað mér að þetta séu vonbrigði fyrir hann vegna þess metnaðar sem hann hefur og þess sem hann vildi afreka hjá Aston Villa," segir Klopp.
„Þetta er augljóslega ekki gott en ég held að við þurfum ekki að hafa nokkrar áhyggjur af Stevie. Hann þekkir leikinn og veit að svona hlutir geta gerst. Við fáum allir högg en þetta snýst um það hvernig þú bregst við. Hann mun pottþétt koma til baka."
„Margir frábærir stjórar þurftu að yfirgefa fyrri félög sín af misjöfnum ástæðum. Nokkrir af þeim bestu fóru annað og reyndu að læra af reynslunni. Hann mun 100% snúa aftur en ég vona núna að hann taki smá frí og tíma fyrir sjálfan sig. Hann hefur verið að vinna nánast samfleytt síðan ferli hans lauk. Nú er góður tímapunktur til að endurhlaða rafhlöðurnar."
Athugasemdir