Nkunku til Barcelona? - Man Utd hefur áhuga á Osimhen - Díaz ánægður á Anfield
   fim 22. júní 2023 19:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Arnar: Get lofað þér að þeir eyrnamerktu okkur sem erfiðustu andstæðingana
Mikið test fyrir okkur að fylgja eftir þessum Evrópuárangri frá því í fyrra
Þegar þú ert kominn í Evrópukeppni þá geturu ekki verið að væla yfir hvort þú sért heppinn eða óheppinn með drátt
Þegar þú ert kominn í Evrópukeppni þá geturu ekki verið að væla yfir hvort þú sért heppinn eða óheppinn með drátt
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Logi Tómasson þykir líklegur til að halda erlendis í atvinnumennsku.
Logi Tómasson þykir líklegur til að halda erlendis í atvinnumennsku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ríkjandi bikarmeistarar.
Ríkjandi bikarmeistarar.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Á þriðjudag kom í ljós hvaða liðum íslensku liðin geta mætt í forkeppni Sambandsdeildarinnar. KA og Víkingur hefja leik í keppninni um miðjan júlí. Víkingur mætir Riga frá Lettlandi í fyrstu umferð og var Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, spurður út í dráttinn.

Fyrri leikurinn fer fram 13. júlí í Riga og seinni leikurinn 20. júlí á Víkingsvelli.

„Ég er virkilega spenntur fyrir þeirri viðureign. Þetta virkar mjög sterkt, öflugt og rútínerað lið sem er vant því að vinna titla. Við hefðum getað verið heppnari en þegar þú ert kominn í Evrópukeppni þá geturu ekki verið að væla yfir hvort þú sért heppinn eða óheppinn með drátt. Þetta er mikið test fyrir okkur að fylgja eftir þessum Evrópuárangri frá því í fyrra," sagði Arnar. Í fyrra fór Víkingur í 3. umferð forkeppninnar og féll þar úr leik eftir framlengdan leik gegn Lech Poznan.

„Ég get líka eiginlega lofað þér því að þeir hafa horft í 'unseeded' liðin og eyrnamerkt okkur sem erfiðustu andstæðingana þar, þannig þetta verða held ég bara skemmtilegar viðureignir," sagði Arnar. Í drættinum eru liðin með flestu Evrópustigin 'seeded' en liðin með færri stig 'unseeded' og er ekki hægt að mæta liði úr sama flokki. Riga og Dudelange frá Lúxemborg voru liðin með flestu stigin í drættinum fyrir 1. umferðina.

Hvatningin að vekja athygli fleiri félaga á sér
Víkingur hafnaði tilboði frá Riga í Loga Tómasson í vetur og var Arnar spurður hvort hann yrði eitthvað extra mótiveraður að sanna sig í þessu einvígi.

„Extra og ekki extra, hann er búinn að vera mótiveraður í allt sumar. Það var áhugi frá þeim í vetur en hvatningin er kannski að vekja athygli annarra og fleiri félaga á sér. Evrópuleikirnir eru fínn gluggi upp á það að gera."

Glasið er alltaf hálffullt hjá okkur
Vegna þátttöku Víkings í Sambandsdeildinni er ekki komin dagsetning á viðureign Víkings og KR í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Leikurinn átti að fara fram í upphafi júlí en var frestað þar sem Jóhannes Kristinn Bjarnason, leikmaður KR, er á leið á EM U19 í júlí. Hvernig horfir þessi frestun við Arnari?

„Við höfum alltaf tekið þann pól í hæðina að það sé ekkert við þessu að gera. Það er ekkert stress okkar megin, það sem skeður það bara skeður. Það er bara spurning hvenær leiknum verður troðið inn, það er þessi árlegi hausverkur fyrir Birki mótastjóra að reyna finna dagsetningu. Hann mun gera það með glæsibrag eins og allt annað. Ég held að það þýði ekkert að vera svekkja sig á einu eða neinu hvað það varðar. Mögulega gæti það endað á að hjálpa okkur - mögulega verður einhver fyrir hnjaski gegn Fylkisleiknum 29. júní. Þá er tími til að jafna sig fyrir leikinn 8. júlí á móti Keflavík. Svo byrjar Evrópuævintýrið. Það eru kostir og gallar í þessu öllu. Glasið er alltaf hálffullt hjá okkur."

Ef Víkingur fer langt í forkeppni Sambandsdeildinni verður fróðlegt að sjá hvar Birkir Sveinsson kemur leiknum fyrir. Eitthvað hefur heyrst af því að bikarúrslitaleikurinn gæti verið færður aftur fyrir lok Bestu deildarinnar til að koma öllum leikjum fyrir. Bikarúrslitaleikurinn er settur á 26. ágúst sem stendur.

„Þetta verður frekar þétt spilað ef við förum áfram úr þessu einvígi við Riga og gæti orðið smá púsluspil að finna dagsetningu. En við höfum áhyggjur af því þegar þar að kemur."

KA menn vilja örugglega eyðileggja það partý
Hvernig horfir það við þér að dagsetningin á hinum undanúrslitaleiknum, þar sem KA og Breiðablik mætast, er óbreytt? Leikur KA og Breiðabliks fer fram á Greifavellinum 4. júlí.

Gæti það verið auka hvatning til að ná góðum úrslitum að vita hver andstæðingurinn verður ef sigur vinnst gegn KR?

„Það skiptir engu máli, báðir andstæðingar eru jafnverðugir. Við erum bæði búnir að spila við lið sem talin eru betri á pappírunum og veikari á pappírunum undanfarin ár í bikarnum, en þetta eru allt drulluerfiðir leikir. Maður þykist vita að knattspyrnuáhugamenn vilja fá ákveðinn úrslitaleik og er það vel skiljanlegt. KA menn vilja örugglega eyðileggja það partý," sagði Arnar.

Þetta var annar hluti af tveimur úr viðtalinu við Arnar og verður þriðji hluti birtur á morgun.

Sjá einnig:
„Eiginlega akkúrat sá tími sem allt fór í hund og kött á síðasta tímabili"
Athugasemdir
banner
banner
banner