Ætlar sér að spila áfram í Bestu deildinni
„Það er einhver áhugi. Ég ætla svo sem ekki að flýta mér í neitt en það er áhugi og það eru viðræður í gangi. Það gæti klárast á næstu dögum," segir Andri Rúnar Bjarnason í samtali við Fótbolta.net.
Það var staðfest fyrr í þessum mánuði að Andri Rúnar yrði ekki áfram hjá Vestra.
Það var staðfest fyrr í þessum mánuði að Andri Rúnar yrði ekki áfram hjá Vestra.
Framherjinn öflugi reyndist gulls ígildi fyrir Vestra á lokakaflanum í Bestu deildinni og hjálpaði liðinu að ná sínum markmiðum; að halda sér uppi.
Hann stefnir á að leika áfram í Bestu deildinni. „Það er það eina sem kemur til greina hjá mér núna," segir Andri.
Eitthvað sem var ákveðið
Andri segir að það hafi alltaf verið planið hjá sér að taka bara eitt tímabil fyrir vestan.
„Jú, það er erfitt (að fara) en svo sem eitthvað sem ég var búinn að ákveða áður en ég fór; að þetta yrði eitt ár sama hvernig færi. Fjölskyldunnar vegna. Ég er búin að draga þau í gegnum ansi mörg félög og ansi marga flutninga. Þau komu ekki með í þetta skiptið. Ég vissi að ég gæti ekki gert þeim það að vera í tvö ár í burtu frá þeim," segir Andri.
„Tíminn með Vestra var mjög skemmtilegur. Davíð Smári (þjálfari liðsins) á mjög stóran þátt í því að ég fékk aftur ástríðu fyrir fótbolta. Þetta kveikti gamlan áhuga þegar maður var kannski orðinn pínu áhugalaus á tímum."
Vestri hélt sér uppi í Bestu deildinni og var það mikilvægt fyrir sóknarmanninn.
„Ég hef aldrei fallið á ferlinum. Það var ekki eitthvað sem ég hefði viljað skilja uppeldisfélagið með. Að fyrsta fallið á ferlinum væri með þeim og svo væri maður farinn. Ég hefði aldrei getað sætt mig við það."
Spenntur fyrir því sem koma skal
Andri er ánægður að hafa fengið að upplifa það að spila í efstu deild með uppeldisfélaginu.
„Maður bjóst ekki við því að ná því að spila með uppeldisfélaginu í efstu deild en eftir þetta geggjaða tímabil í fyrra - og ég var búinn að lofa Samma að spila með þeim einhvern tímann á meðan hann væri þarna - þá gat ég ekki sleppt því. Það var borðliggjandi að fara," segir Andri Rúnar en hann er spenntur fyrir næsta kafla.
„Ég er spenntur fyrir því sem koma skal. Mér líður vel í skrokknum. Þetta er í fyrsta skipti síðustu fjögur ár þar sem ég get byrjað að æfa fyrir áramót. Ekki nein smávægileg meiðsli eða þannig. Það er eitthvað sem ég er helvíti spenntur fyrir."
Athugasemdir