Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   fös 22. nóvember 2024 15:11
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Alfreð fékk skilaboð frá æðri mætti - „Fann að ég vildi ekki eyða heilu ári í þetta"
Ákvað í gær að tilkynna að leikmannaferlinum væri lokið.
Ákvað í gær að tilkynna að leikmannaferlinum væri lokið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markinu gegn Argentínu fagnað.
Markinu gegn Argentínu fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skoraði tvisvar yfir 10 mörk með Augsburg í efstu deild Þýskalands.
Skoraði tvisvar yfir 10 mörk með Augsburg í efstu deild Þýskalands.
Mynd: Getty Images
Markakóngur, besti leikmaðurinn og Íslandsmeistari tímabilið 2010.
Markakóngur, besti leikmaðurinn og Íslandsmeistari tímabilið 2010.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Óstöðvandi hjá Heerenveen.
Óstöðvandi hjá Heerenveen.
Mynd: Getty Images
Markinu gegn Arsenal vel fagnað.
Markinu gegn Arsenal vel fagnað.
Mynd: EPA
Alfreð kom inn á í stöðunni 2-1 fyrir Olympiakos. Alexis Sanchez jafnaði fyrir Arsenal en strax mínútu síðar kom Alfreð Olympiakos aftur yfir.
Alfreð kom inn á í stöðunni 2-1 fyrir Olympiakos. Alexis Sanchez jafnaði fyrir Arsenal en strax mínútu síðar kom Alfreð Olympiakos aftur yfir.
Mynd: EPA
Alfreð heiðraður á Laugardalsvelli í haust.
Alfreð heiðraður á Laugardalsvelli í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vel fagnað á EM.
Vel fagnað á EM.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Stemning.
Stemning.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Marki fagnað í Tyrklandi.
Marki fagnað í Tyrklandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tók þátt í ótrúlegri björgun Lyngby vorið 2023. 'The Great Escape'.
Tók þátt í ótrúlegri björgun Lyngby vorið 2023. 'The Great Escape'.
Mynd: Getty Images
Fagnaði sínu átjánda og síðasta landsliðsmarki gegn Liechtenstein í október í fyrra. Alfreð er fjórði markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins.
Fagnaði sínu átjánda og síðasta landsliðsmarki gegn Liechtenstein í október í fyrra. Alfreð er fjórði markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfreð Finnbogason tilkynnti í gær að leikmannaferli sínum væri lokið en hann hefur spilað meistaraflokksbolta frá sumrinu 2007. Hann lék með Augnabliki, Breiðabliki, Lokeren, Helsingborg, Heerenveen, Real Sociead, Olympiakos, Augsburg, Lyngby og síðast Eupen á sínum ferli. Alfreð lék 73 landsleiki og skoraði í þeim átján mörk.

Hann varð Íslands- og bikarmeistari með Breiðabliki, markakóngur bæði á Íslandi og í Hollandi, grískur meistari og belgískur bikarmeistari. Alfreð skoraði fyrsta mark Íslands í sögunni á HM og skoraði sigurmarkið gegn Arsenal í Meistaradeildinni þegar hann lék með Olympiakos.

Framherjinn ræddi við Fótbolta.net.

Fann að tíminn var kominn
„Aðdragandinn að þessu er sá að ég rifti við Eupen í byrjun september. Planið var að spila þetta tímabil þar, og hvernig fyrstu leikirnir voru, þá kom einhver æðri máttur til mín eftir þriðja leikinn okkar í deildinni og ég fann að þetta var ekki það sem ég vildi eyða heilu ári í," segir Alfreð sem var í algjöru aukahlutverki í belgíska liðinu.

„Á þeim tímapunkti vissi ég ekki hvað ég ætlaði að gera, eina sem ég vissi var að ég vildi ekki vera þarna áfram. Mig langaði að bíða í 2-3 vikur og sjá hvernig líkaminn og hausinn tæki við þessu hvort að löngunin að byrja að æfa aftur, ef eitthvað kæmi upp að vera þá klár. En svo liðu vikurnar, ég einhvern veginn líka kominn á fullt í annað og má segja að það hafi komið til mín að atvinnumennska í fótbolta væri nokkurn veginn búið. Alltaf þegar ég hef fengið frí eða verið meiddur, þá hefur verið öskrandi metnaður í mér að vera klár og gera allt til þess að vera klár, en það var ekki lengur til staðar. Þá vildi ég hlusta á þessu skilaboð sem komu að innan, og í stað þess að fara í þvingaða stöðu þar sem maður væri að reyna kreista út 1-2 ár einhvers staðar, þá vildi ég frekar hætta aðeins of snemma frekar en aðeins of seint."

Gott að þurfa ekki að hætta haltrandi
Alfreð segir að skrokkurinn sé frábær, sér líði vel í líkamanum. „Ég tók sjö vikna undirbúningstímabil með Eupen þar sem ég missti ekki af æfingu. Ég var svo í hóp í fyrstu þremur leikjunum og kom inn á í tveimur af þeim - spilaði ekki mikið. Mér líður vel og maður tekur því ekki sem sjálfsögðum hlut að líða vel og þurfa ekki að hætta haltrandi - ekki þvingaður í þessa ákvörðun. Mér finnst þetta rétt ákvörðun fyrir mig persónulega og fyrir mína fjölskyldu."

Allir að leita að ungum og efnilegum leikmönnum
Alfreð rifti samningi sínum í september og fékk í kjölfarið nokkrar fyrirspurnir frá félögum, en ekkert nægilega spennandi til að stökkva á.

„Það hafa alveg komið einhverjar fyrirspurnir, en ekkert af þeim hafa verið þannig að ég hugsaði með mér ég væri tilbúinn að flytja með fjölskylduna eða flytja einn í burtu til að spila fótbolta. Markaðurinn eins og hann er núna er ekki mjög hliðhollur eldri leikmönnum. Maður þarf að vera nokkuð hreinskilinn með það, ég er að verða 36 ára og það eru allir að leita að ungum og efnilegum leikmönnum til að spila þeim og svo mögulega selja þá áfram. Þetta hefði þurft að vera eitthvað þar sem maður þekkir einhvern sem þekkir mig vel sem leikmann og persónu - að þeim aðila hefði vantað einhvern leikmann. Eða þá að koma til Íslands og spila. Á endanum fannst mér þetta rétt ákvörðun fyrir mig."

„Langaði að það yrði minningin"
Blundaði það í Alfreð að klára ferilinn með Breiðabliki?

„Ég var í rauninni aldrei með hugann við það, ef ég hugsa til baka nokkur ár þá var aldrei planið að enda heima. Það er eitt að vera með plan í fótbolta, svo gerist eitthvað og maður þarf að aðlaga sitt plan að aðstæðum hverju sinni, reynir að gera sitt besta á hverjum stað og ef eitthvað kemur upp að taka ákvörðun út frá því."

„Ég átti frábæra tíma hjá Breiðabliki í byrjun míns ferils, spilaði tvö tímabil í efstu deild og langaði að það yrði minningin. Vitandi það að ef ég er ekki að geta þetta 110% þá væri þetta bara þvingað og þá myndu koma upp önnur vandamál eins og meiðsli. Ef ég væri ekki að fara gera þetta almennilega hjá Breiðabliki þá væri það ekki þess virði og ég fann bara ekki það hungur."


Klára allavega skólaárið
Hvernig er planið í dag, ætlar fjölskyldan að flytja frá Belgíu?

„Krakkarnir okkar eru í skóla hérna í Maastricht í Hollandi, búum í Belgíu en Maastricht er við landamærin og tekur bara um korter að fara þangað. Planið okkar akkúrat í dag er að þau klári skólaárið hér, eru mjög ánægð hér. En eins og ég segi þá geta plön breyst fljótt, við erum ennþá að átta okkur á nýrri stöðu í lífinu.

„Það er í raun ekkert ákveðið með hvort við munum búa á Íslandi eða ekki. Fyrsta planið var að taka þessa ákvörðun formlega að hætta, mér fannst gott að koma því út, því svo lengi sem maður segir ekki neitt þá hangir þetta yfir manni - ég var samt í raun búinn að taka þessa ákvörðun fyrir nokkrum vikum. Eins og staðan er í dag er ekkert niðurneglt."


Hollt að geta hent sér strax í annað starf
Alfreð er í starfi hjá knattspyrnudeild Breiðabliks. Þar kemur hann að stefnumótun og leikmannamálum.
   29.08.2024 16:30
„Viljum búa til umhverfi þar sem við getum haldið efnilegum leikmönnum aðeins lengur"

„Eftir að ég hætti þá hef ég komið meira inn í það starf og gert meira en var hægt sem leikmaður. Ég hef getað komið til Íslands og gert hluti sem ekki hefði verið mögulegt ef ég hefði verið að spila. Sjálfkrafa hef ég komið meira og meira inn í starfið og hef mjög gaman af því. Það er mörgu leyti hollt fyrir mig að geta strax hent mér í eitthvað annað í staðinn fyrir að vera í einhverri biðstöðu."

„Það eru ákveðin tímamót hjá Breiðabliki, mikið af nýju fólki og mikið af pælingum. Það er skemmtilegt að vera hluti af því teymi sem er vonandi að móta skemmtilega hluti hjá félaginu."


Undirbúningur fyrir næsta tímabil Breiðabliks er á fullu, fréttir birst af kaupum á leikmönnum. Hvernig er Alfreð að fíla að vera kominn inn í þessa hlið fótboltans?

„Auðvitað eru þetta smá viðbrigði að vera á hinni hliðinni, en á sama tíma skemmtilegt. Ég hef haft mjög gaman af þessu, unnið mjög náið með þjálfurum. Aðaláherslan hefur verið á að koma mér inn í starfið, reynt að átta mig á því hvernig staðan er á hverjum flokki fyrir sig, hver stefnan sé. Ég hef líka verið í sambandi við Dóra og teymið varðandi hvernig þeir sjá og setja upp næsta ár. Það er mikil vinna í því núna, að setja upp góðan leikmannahóp fyrir næsta ár."

Landsliðið á toppnum en nefnir önnur stór augnablik
Hverjir eru hápunktarnir á ferlinum? Trompar landsliðsferillinn félagsliðaferilinn?

„Stóru augnablikin með landsliðinu munu alltaf vera efst í minni. Það að hafa farið á þessi tvö stórmót, það er svo einstakt sem Íslendingur að hafa verið hluti af því. Það er á toppnum. Svo eru mörg augnablik sem maður hugsar fallega til."

„Þó að það hafi „bara" verið á Íslandi, þá er það að hafa verið hluti af fyrsta liði Breiðabliks sem verður Íslandsmeistari eitthvað sem ég met rosalega hátt á mínum ferli. Svo eru einstaklingsafrek eins og að hafa verið markahæstur í Hollandi, það er eitthvað sem ég met mjög mikils. Ég spilaði í Meistaradeildinni, tikkaði í það box."

„Það sem ég er kannski stoltastur af, persónulega, er að hafa skorað meira en tíu mörk tvö tímabil í röð í Bundesligunni með Augsburg sem spilar alltaf í neðri hlutanum. Ég spilaði stærsta hlutann af mínum ferli í Þýskalandi, þar leið mér ótrúlega vel og fyrstu tvö börnin mín eru fædd þar. Ég hugsa rosalega hlýtt til Augsburg þar sem ég var í sjö tímabil."

„Þó að hlutirnir hafi sums staðar ekki gengið upp, þá horfi ég samt á þá sem geggjaðan tíma í reisu sem ég get horft til baka á í dag með miklu þakklæti."


Tvö mörk sem standa upp úr
Eitt af stóru augnablikunum er sigurmarkið á Emirates leikvanginum með Olympiakos í Meistaradeildinni. Markið tryggði Olympiakos 2-3 útisigur á Arsenal í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
   21.11.2024 12:44
Sjáðu þegar Alfreð skráði sig á spjöld sögunnar

„Það er klárlega annað af stærstu mörkunum á mínum ferli, hitt er markið á HM á móti Argentínu."

„Sviðið, Meistaradeildin, og mikilvægi marksins - ekki eitthvað sárabótamark í 4-1 tapi. Þetta eru mörkin sem standa upp úr á mínum ferli, tvö stærstu augnablikin sem ég upplifði á fótboltavellinum."


Klárlega mistök en engin eftirsjá
Alfreð lýkur ferlinum hjá Eupen, félagi sem hann samdi við sumarið 2023 eftir eftirminnilegt ár hjá Lyngby sem hélt sér uppi í dönsku úrvalsdeildinni á ótrúlegan hátt. Alfreð sagði frá því í EM stofunni á RÚV í sumar að það hefðu verið mistök að fara frá Lyngby. Situr það ennþá í honum?

„Ég spái ekki í því dagsdaglega. Eftir á að hyggja, þegar maður skoðar stöðuna núna, þá voru það klárlega mistök fótboltalega séð að fara frá Lyngby til Eupen út frá því að Eupen féll og Lyngby hélt sér í deildinni. Ef þetta hefði verið öfugt þá hefði þetta verið frábær ákvörðun."

„En á þeim tímapunkti sem Eupen kemur inn i myndina, bjóða mér 34 ára gömlum tveggja ára samning, með þjálfara sem ég þekki og liðið búið að byrja tímabilið vel, mér fannst það spennandi á þeim tíma. Ég leit á það sem síðasta tækifærið til að komast í aðeins sterkari deild og prófa mig. Eftir á að hyggja var ég búinn að vinna svo mikið fyrir því að komast á þann stað sem ég var í hjá Lyngby, var orðinn algjör lykilmaður í kerfinu og liðinu. Ég veit að ég hefði átt frábært tímabil ef ég hefði verið áfram."

„Þetta er bara einn af þessum hlutum í fótbolta. Maður tekur ákvarðanir og þær eru ekkert alltaf réttar. Mér fannst þetta rétt ákvörðun á þeim tíma, miðað við tvö ár og innihald samningsins. Við fjölskyldan vorum til í að taka eitt alveg lokaævintýri. Það fór ekki eins og maður vildi, en ég er ekki með neina eftirsjá."


Hefði viljað njóta aðeins meira
Er eitthvað sem þú hefur lært í gegnum ferilinn, eða finnur hjá þér í dag, sem þú hefðir viljað vita þegar þú varst að stíga þín fyrstu skref í meistaraflokki? Eitthvað heilræði til yngri útgáfunnar af sjálfum þér?

„Ég hefði klárlega verið til í að vita allt sem ég veit í dag þegar ég var tvítugur, ekki spurning. Maður tekur fótboltaferlinum sem svolítið sjálfsögðum hlut. Maður er einhvers staðar, kannski að spila í stórri deild, maður heldur að það sé sjálfsagður hlutur. Svo er þetta svo fljótt að líða og allt í einu ertu kominn á þann stað að vera hættur. Maður hefði stundum átt að brosa og njóta augnabliksins meira. Maður var alltaf svo drifinn, alltaf að hugsa um næsta leik. Ég naut alveg augnablikanna, en hefði kannski viljað gera það aðeins meira. Ég var mjög alvörugefinn í því sem ég var að gera, hluti af mínum karakter, en hefði stundum aðeins mátt slaka á og brosa aðeins meira."

Sjá allir að það vantar stöðugleika
Lokaspurninging var út í landsliðið. Alfreð lagði landsliðskóna á hilluna í ágúst og hefur því getað fylgst með utan frá á meðan Þjóðadeildin spilaðist. Hvernig sér hann stöðuna á landsliðinu í dag? KSÍ getur sagt samningi Age Hareide upp eftir rúma viku, myndi hann, sem stuðningsmaður liðsins, vilja sjá breytingu þar?
   28.08.2024 09:35
Alfreð: Kannski ekki þess virði að halda áfram í þannig aðstæðum

„Ég mun ekki tjá mig um það persónulega, ég hef vissulega skoðun á því, en mér finnst ég vera mjög tengdur þessu ennþá, mjög stutt síðan ég hætti í landsliðinu og á vini í liðinu. Það eru rosalega miklir möguleikar, rosalega margt gott, en einhvern veginn erum við ekki að ná að binda heilsteyptar frammistöðu yfir lengri tíma. Það sjá allir að það vantar smá stöðugleika í allt."

„Við erum með hrikalega gott fólk sem er að stýra sambandinu og það mun taka bestu ákvörðunina fyrir Ísland og íslenska landsliðið."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner