Alfreð Finnbogason hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Hann greinir frá þessum tíðindum með fallegri færslu á samfélagsmiðlum.
Alfreð birtir mynd af sér þegar hann var aðeins fimm ára gamall og skrifar við hana:
Alfreð birtir mynd af sér þegar hann var aðeins fimm ára gamall og skrifar við hana:
„Þessi fimm ára strákur átti einn stóran draum. Ég var það heppinn að fá að upplifa hann á hverjum degi og miklu meira en það. Bless."
„Í dag endar ótrúlegur kafli í mínu lífi og á sama tíma byrjar kafli sem ég er mjög spenntur fyrir."
„Takk allir sem voru hluti af vegferðinni á einhvern hátt. Ég vil þakka fjölskyldu minni sérstaklega en hún gaf mér endalausan stuðning og færði ýmsar fórnir."
Alfreð átti stórkostlegan feril en hann var síðast á mála hjá Eupen í Belgíu. Hann rifti samningi sínum þar í september síðastliðnum.
Alfreð gekk ungur að árum til Breiðabliks og hóf meistaraflokksferil sinn í Kópavogi. Hann hefur spilað með liðum á borð við Augsburg, Real Sociedad og Heerenveen ásamt Lyngby og Eupen á atvinnumannaferli sínum.
Alfreð, sem er 35 ára, lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Ísland árið 2010 í æfingaleik gegn Færeyjum. Hann er hluti af gullkynslóðinni svokölluðu sem vann sér sæti á EM 2016 og HM 2018. Hann skoraði fyrsta mark Ísland á HM í Rússlandi 2018 í eftirminnilegum leik gegn Argentínu.
Hann var síðasta sumar ráðinn í starf hjá Breiðabliki, sem tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar. Er það líklega byrjunin á mjög áhugaverðum ferli í öðru hlutverki innan fótboltans.
Athugasemdir