Pep Guardiola, stjóri Man City, er ekki stoltur af því að hrauna yfir leikmennina sína þegar illa gengur en það sást eitt slíkt atvik í heimildaþáttunum 'Together 4 in a row'.
Þar er fylgst með liðinu fara í gegnum síðasta tímabil sem endaði með fjórða Englandsmeistaratitli liðsins í röð. Liðið vann baráttuna gegn Arsenal á lokametrunum.
Í þáttunum sést Guardiola hrauna yfir Phil Foden og Erling Haaland í hálfleik fyrir að klúðra færum þegar liðið var að gera 1-1 jafntefli í grannaslag gegn Man Utd. Leiknum lauk með 3-1 sigri City þar sem Haaland og Foden skoruðu í seinni hálfleik.
„Ég var ekki stoltur eftir leikinn að ég lét reiðina bitna á leikmönnunum. Ég er mennskur en ég kann ekki að meta þetta. Á þessu augnabliki réð ég ekki við tilfinningarnar," sagði Guardiola.