Brasilíski sóknarmaðurinn Neymar segir að meiðslin sem hann varð fyrir á síðasta ári hafi næstum orðið til þess að skórnir færu upp í hillu en þetta sagði hann í heimildarmyndinni Saudi Pro League: Kickoff á Netflix.
Neymar sleit krossband í byrjun síðasta tímabils, sem var hans fyrsta með Al-Hilal.
Langt og strangt endurhæfingaferli tók við, en hann snéri ekki aftur á völlinn fyrr en í lok október.
Sóknarmaðurinn er kominn aftur á meiðslalistann hjá Al-Hilal og mun ekki spila meira á árinu, en segir mikilvægt að hafa gott fólk í kringum sig þegar svona áfall kemur upp.
„Ég vaknaði suma daga og vildi bara hætta. Ég viðurkenni að þessi meiðsli höfðu mestu áhrifin á ferlinum. Ég var ótrúlega leiður og mjög langt niðri andlega fyrsta mánuðinn. Þegar ég meiddist þá vissi ég að þetta væru alvarleg langtímameiðsli og það var erfitt fyrir mig að vera á hliðarlínunni.“
„Byrjunin á þessu ferli er mjög flókin. Maður finnur aðeins fyrir sársauka í byrjun og vildi ég bara hætta. Ég vildi beygja hnéið snögglega til þess að endurheimta hreyfigetuna og kveðja sársaukann.“
„Það getur verið erfitt að koma til baka ef þú hefur ekki fólk sem elskar þig, þér við hlið. Þetta ruglar í hausnum og líkamanum. Ég er ekki lengur tvítugur. Ég er þakklátur að hafa vini og fjölskyldu í kringum mig og að hafa börnin til að hvetja mig á hverjum degi,“ sagði Neymar.
Athugasemdir