Framtíð Age Hareide sem landsliðsþjálfara Íslands hefur verið mikið til umræðu síðustu daga.
Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ og stjórn sambandsins munu nú fara yfir þjálfaramálin en framtíð Hareide er í óvissu. Hann er með samning til 30. nóvember og ekki hefur verið ákveðið hvort hann verði áfram.
Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ og stjórn sambandsins munu nú fara yfir þjálfaramálin en framtíð Hareide er í óvissu. Hann er með samning til 30. nóvember og ekki hefur verið ákveðið hvort hann verði áfram.
Sögusagnir hafa verið í gangi um að KSÍ sé að íhuga þjálfaraskipti og hafa Arnar Gunnlaugsson og Freyr Alexandersson helst verið í umræðunni. KSÍ hefur þó rætt við hvorugan sem stendur samkvæmt upplýsingum Fótbolta.net.
„Mér finnst öll umræða um að Age eigi ekki að vera áfram vera glórulaus. Þetta er reynslumikill maður sem er að vinna góða teymisvinnu með Davíð Snorra og þeim sem eru í teyminu," sagði Baldvin Már Borgarsson í Innkastinu í dag. Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson tók undir þessi orð.
„Mér finnst góð teikn vera á lofti með Age Hareide við stjórnvölinn. Mér finnst það hálf galið að skipta út og gefa nýjum manni lítinn tíma til undirbúnings þegar við erum að fara í mikilvæga undankeppni fyrir HM á næsta ári. Af hverju ekki að halda stöðugleika þegar við erum að fara í þessa undankeppni og þegar menn eru farnir að þekkja hlutverk sín?" sagði Guðmundur.
„Sérstaklega af því mér finnst þetta á réttri leið. Þetta verður bara betra og skemmtilegra," sagði Baldvin. „Kostirnir sem gætu komið í staðinn og eru spennandi, það eru Arnar Gunnlaugsson og Freyr Alexandersson. Ég vil ekki sjá Freysa koma heim úr þessari atvinnumennsku núna. Komdu heim sextugur. Ég vil þá sjá Arnar taka við Bröndby, Middlesbrough eða eitthvað. Hann er í dauðafæri að fara út og taka næsta skref á erlendri grundu."
Haraldur Örn Haraldsson, fréttamaður Fótbolta.net, var líka í þættinum en hann var ekki alveg sammála.
„Ég er ekki 100 prósent sannfærður um Age og það er út af varnarleiknum," sagði Haraldur. „En það er áhætta að skipta út núna þar sem hann hefur verið á vegferð."
„Maður vill auðvitað sjá þessa íslensku þjálfara standa sig vel í félagsliðaboltanum en ég styð íslenska landsliðið. Mér er miklu meira annt um hvað íslenska landsliðið gerir. Ef Freysi getur komið og tekið við landsliðinu þó það sé verra fyrir hans feril, þá langar mig það miklu frekar sem stuðningsmaður landsliðsins."
„Ég er byrjaður að íhuga að fara af Age vagninum á næsta stoppi. Við verðum að ákveða núna hvort að hann fari eða ekki. Ég væri alveg sáttur ef hann heldur áfram en ég verð ekkert svo fúll ef hann fer," sagði Haraldur jafnframt.
„Svo er spurning hvort Age vilji halda áfram með liðið," sagði Guðmundur.
Það ræðst á næstu dögum hvaða þjálfari fær það verkefni að koma Íslandi á HM á næsta ári, hvort það verði Hareide eða einhver annar kostur.
Hægt er að hlusta á allan þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir