Framtíð Neymar hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarið en hann hefur ekki spilað mikið undanfarið ár.
Hann gekk til liðs við Al-Hilal í Sádí-Arabíu frá PSG á síðasta ári en sleit krossband fljótlega. Hann snéri aftur á dögunum en meiddist aftur.
Hann hefur mikið verið orðaður við uppeldisfélagið sitt Santos í Brasilíu og sagt að Al-Hilal vilji rifta samningnum hans en Pini Zahavi, umboðsmaður leikmannsins, harðneitar þeim sögusögnum.
Leila Pereira, forseti brasilíska félagsins Palmeiras, var spurð að því hvort hún hefði áhuga á því að fá Neymar til liðs við sig.
„Neymar kemur ekki til Palmeiras, þetta félag er ekki spítali. Ég þarf einhvern sem getur komið strax og gæti spilað á morgun ef þjálfarinn vill það. Ég mun ekki kaupa leikmann sem er ekki í standi til að spila," sagði Pereira.