Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fös 22. nóvember 2024 16:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Álitsgjafar svara - Age inn eða út?
Icelandair
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands.
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Norðmaðurinn hefur stýrt landsliðinu síðan í apríl á síðasta ári.
Norðmaðurinn hefur stýrt landsliðinu síðan í apríl á síðasta ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugsson er orðaður við starfið.
Arnar Gunnlaugsson er orðaður við starfið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson hefur líka verið nefndur.
Freyr Alexandersson hefur líka verið nefndur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri Steinn Óskarsson og Age Hareide.
Orri Steinn Óskarsson og Age Hareide.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland er að fara inn í mikilvæga undankeppni fyrir HM á næsta ári.
Ísland er að fara inn í mikilvæga undankeppni fyrir HM á næsta ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þjálfarateymið eins og það er í dag.
Þjálfarateymið eins og það er í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er mikil umræða um það núna í íslensku samfélagi hvort að Age Hareide eigi að vera áfram landsliðsþjálfari.

Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ og stjórn sambandsins munu nú fara yfir þjálfaramálin en framtíð Hareide er í óvissu. Hann er með samning til 30. nóvember og ekki hefur verið ákveðið hvort hann verði áfram.

Sögusagnir hafa verið í gangi um að KSÍ sé að íhuga þjálfaraskipti og hafa Arnar Gunnlaugsson og Freyr Alexandersson helst verið í umræðunni.

Núna er í gangi könnun á forsíðu Fótbolta.net þar sem er spurt hver eigi að stýra íslenska landsliðinu. Eru þar Hareide, Arnar og Freyr nefndir sem kostir. Einnig er hægt að merkja í valkostinn 'einhvern annan'. Þetta er hnífjöfn könnun er Hareide er þessa stundina á toppnum með 38,37 prósent atkvæða en Arnar Gunnlaugs er með 34,99 prósent atkvæða.

Við á Fótbolta.net ákváðum að fá nokkra álitsgjafa til að svara spurningunni sem margir eru að spyrja sig að í dag; á Hareide að stýra liðinu áfram. Þetta voru svörin sem fengust:

Brynjar Kristmundsson, þjálfari Víkings Ólafsvík
Ég myndi vilja halda Age áfram nema Freysi sé klár. Spilamennskan undir Age hefur oft á tíðum verið mjög góð og verður gaman að sjá hvernig þetta verður þegar Albert og Hákon koma til baka. En ef Freysi vill taka þetta að þá er það engin spurning.

Einar Guðnason, fótboltaþjálfari
Árin undir Age hafa verið mikið upp og niður. Góðir leikir sem gefa bjartsýni einungis til að maður sé sleginn niður í næsta leik. Það sem mér finnst kannski helst ábótavant er að á köflum er mikið agaleysi innanvallar bæði í varnarleik liðsins og í spjaldasöfnun en við höfum fengið nokkur algjör óþarfa spjöld sem hafa kostað. Spjaldasöfunin gæti að einhverju leiti snúist um að okkur vantar sterkari leiðtoga inná völlinn og varnarleikurinn að við náum sjaldan að stilla sama liðinu upp 2 leiki í röð. Ég er hrifinn af hápressu og það hafa komið upp góðir hápressukaflar í leikjum okkar en stundum er pressan kannski full kaótísk, hún mætti kannski vera aðeins meira controled en okkar fremstu menn eru ungir, graðir og óreyndir og mun þessi þáttur eflaust slípast til með fleiri leikjum.

Ég er ekki með tölfræði þætti liðsins á hreinu en augað segir að við séum ekki að skila inn góðri tölfræð. Ég væri alla vega til í að sjá greiningu á þessum þáttum. Þetta eru þó mögulega ekki þættir sem við höfum alltaf verið sterkir í en eitthvað sem við höfum verið sterkari og stapílli í en núna. Age til varnar þá hefur hann ungan hóp í höndunum og hann hefur ekki náð stöðugleika í liðsval af ýmsum ástæðum.

Ef Age fer þá vil ég sem stuðningsmaður Víkings ekki sjá það að Arnar Gunnlaugsson taki við liðinu en ef ég héldi með örðu liði á Íslandi þá væri ég mjög spenntur fyrir því. Hann þarf að vinna eins og einn Evrópubikar áður en hann fær að fara. Hann er hrikalega klár þjálfari sem hefur mikla aðlögunarhæfni og myndi verða frábær landsliðsþjálfari. Varðandi Frey þá er hann frábær þjálfari sem á einhverjum tímapunkti mun þjálfa liðið og koma okkur á stórmót, en núna er kannski ekki réttur tímapunktur fyrir hann sjálfan. Báðir þessir þjálfarar eiga ýmislegt ógert í þeim störfum sem þeir eru í en ef annar þeirra er til í að taka liðið væru það frábærar fréttir.

Af öllu þessu sögðu þá vona ég að Age haldi áfram, nái aga og stöðugleika í liðið og taki það á næsta stall og Arnar og Freyr taki svo liðið í framtíðinni.

Gylfi Tryggvason, þjálfari Grindavík/Njarðvík
Ég vil halda Age.

Fátt lýsir samfélagsvanda betur en íslenska karlalandsliðið í fótbolta. Æsifréttamennska, smellubeitur og úlfaldar úr mýflugum. Tvístrun, óþolinmæði og reiði.

Og það versta við þetta er að það er allt saman skiljanlegt. Við erum ofdekruð þjóð sem lifði í góðæri á öðrum áratug aldarinnar á sama tíma og landsliðið gerði endanlega út um okkar hugarfar með hverjum ótrúlega sigrinum á fætur öðrum.

Í framhaldi taka við Covid, hærri stýrivextir og kynslóðaskipti landsliðsins. Það er verið að jarðtengja þjóðina og við erum ekki að höndla það. Við höfum alltaf fengið dótið úr búðinni sem við vildum en síðustu fimm ár hafa mamma og pabbi sagt nei. Og við erum öskurgrenjandi í búðinni í þeirri von um að fá okkar fram af því að…

…þá verðum við hamingjusöm?

Sársaukinn fer þegar hann hefur kennt manni sína lexíu.

Ég vona að KSÍ standi í lappirnar og haldi sig við Åge, sem er með ungt lið í höndunum sem er loksins að ljúka erfiðum kynslóðaskiptum. Hann hefur verið án sinna bestu leikmanna í of mörgum leikjum. Liðið spilar skemmtilegan fótbolta sem er gaman að horfa á.

Jú. Varnarleikurinn hefur verið slakur. Skoðum mörkin sem við fáum á okkur. Hversu mikið af því má rekja til þjálfarateymis? Sýnum þolinmæði.

Sama hvort Åge haldi áfram eða ekki eru bjartir tímar framundan hjá landsliðinu. Leikmenn spila leikinn og við eigum marga frábæra leikmenn sem eru að stíga inn í sín bestu ár.

Styðjum liðið. Höldum áfram. Öndum með nefinu. Sameinumst. Við erum á réttri leið.

Áfram Ísland.

Jóhann Skúli Jónsson, þáttastjórnandi Draumaliðsins
Ef þetta snýst ekki um peninga þá vil ég halda Åge. Ég upplifi mikið öryggi í þessum skandinavíska gamlingja realisma sem hann kemur með á hliðarlínuna, ég hef ekki heyrt annað en að þeir leikmenn sem skipti máli fíla hann og mér finnst ekkert í spilamennsku liðsins vera að benda til þess að við séum á einhverri húrrandi rangri leið. Þetta var helvíti löng setning en ég stend við hana. Allir eru að kvarta undan því að við þurfum varnarmenn. Staðan var nákvæmlega eins fyrir fyrstu undankeppnina hans Lars. Ef ég get gagnrýnt hann fyrir eitthvað þá er það hversu ótrúlega mikið hann hróflar í liðinu. Ég held hann sé alls ekkert verri maður heldur en þeir sem hafa verið nefndir í staðinn til þess að finna þann stöðugleika. Svo er ég náttúrulega ekkert eðlilega ánægður með hvað hann er í miklum plús þegar kemur að kolefnisspori #TeamTeams

Kristján Óli Sigurðsson, sérfræðingur í Þungavigtinni
Takk en nei takk. Ég held að þessum kafla sé lokið. Við eigum nógu færa þjálfara til þess að taka við og koma þessu liði á stórmót á næstu 4 árum. Kynslóð leikmanna sem eru hungraðir í að koma Íslandi aftur á kortið í heimsfótboltanum. Hákon Vald, Sverrir Ingi, Albert, Hákon Haralds og Orri Steinn eiga vonandi eftir að bera liðið uppi leyfa þjóðinni að dreyma aftur um stórmót.

Magnús Valur Böðvarsson, vallarstjóri
Mér hefur fundist liðið á réttri leið og væri ekkert ósáttur ef hann verður áfram. Hins vegar fer Wales leikurinn í mig bæði varðandi skiptingar og leikskipulag þegar Orri meiðist. Þannig að sama hvort gerist þá tel ég það ekki vera ranga ákvörðun.

Ef Age fer, þá er Freysi alltaf númer eitt hjá mér en ég vil að hann verði áfram í félagsliðabolta. Annars held ég að minn maður sé alltaf Rúnar Kristins, held að hann henti íslenska landsliðinu vel. Arnar Gunnlaugs væri númer þrjú.

Stefán Árni Pálsson, íþróttafréttamaður á Stöð 2 Sport
Ég hef verið Age maður en frammistaðan gegn Wales var alls ekki nægilega góð og eftir að hafa hlustað á eldræðu Lárusar Orra þá sannfærðist ég um að hann er ekkert endilega svarið. Hann hefur einfaldlega ekki náð að smíða nægilegan góða vörn á þessum tíma sínum. Gerir mjög miklar breytingar á línunni. Auðvitað hefur hann neyðst til þess stundum. En það er alltaf spurning hver eigi að taka við. Mér finnst það í raun alltaf stærsta spurninginn. Þetta er spennandi lið og vel hægt að gera góða hluti með það. Age er samt ekkert slæmur kostur þannig, en ég myndi vilja Frey Alexandersson í þetta starf. Ef hann væri ekki kostur, þá myndi ég líklega halda Age.

Sölvi Haraldsson, fréttamaður á Fótbolta.net
Skil ekki þessa umræðu að það sé einhver lausn að skipta um þjálfara. Sé ekki þá þjálfara sem eru orðaðir við starfið gera betur með liðið nema kannski Freysa en ég vil halda honum lengur úti. Mörkin sem við fáum á okkur gegn Wales til dæmis eru einstaklings mistök. Åge getur ekki klárað þessi færi sem við fáum á okkur gegn Wales. Ég sé mikla bætingu á liðinu. Hákon, Arnór Sig og Albert eigum við inni líka. Við erum þu þunnskipaðir varnarlega en Hjörtur og Sverrir er klárlega okkar besta hafsentapar.

Åge var einum leik frá því að koma okkur á EM. Hann hefur átt miklu fleiri góða leiki en slæma leiki að mínu mati. Hvaða þjálfari getur gert betur með þetta lið? Hvað af þessum tapleikjum er Åge að kenna?
Athugasemdir
banner
banner
banner