Pep Guardiola. stjóri Manchester City á Englandi, íhugaði alvarlega að hætta með liðið eftir þetta tímabil en hætti skyndilega við eftir að liðið tapaði óvænt fjórum leikjum í röð.
Spænski þjálfarinn var að renna út á samningi og voru meiri líkur en minni á að hann myndi yfirgefa félagið eftir tímabilið.
Man City hefur verið að ganga í gegnum meiðslavandræði undanfarið og hefur þá liðinu gengið illa að ná í úrslit.
Liðið hefur tapað síðustu fjórum leikjum í öllum keppnum en það er í fyrsta sinn sem það gerist á þjálfaraferli Guardiola.
Guardiola fannst ekki réttlátt gagnvart klúbbnum að skilja liðið eftir í þessari stöðu og ákvað því að framlengja samning sinn til 2027. Það má því segja að þessi taphrina hafi orðið til þess að hann gerði nýjan samning.
„Í allri hreinskilni þá fannst mér, starfsteyminu og vinum mínum við verðskulda að vera hér. Ég segi þetta ekki með hroka, heldur er það sannleikurinn. Mér finnst við eiga skilið að snúa við taflinu eftir fjögur töp í röð. Á því augnabliki og á þeim tímapunkti fékk maður þá tilfinningu að maður yrði að taka réttar ákvarðanir fyrir framtíðina og ég vil taka hana. Ég hef verið djúpt hugsi síðan í byrjun tímabilsins.“
„Ég vil vera hreinskilinn. Tilfinningin var sú að þetta yrði síðasta tímabilið, en mér fannst ekki rétti tíminn að fara eftir þau vandræði sem við höfum gengið í gegnum síðasta mánuðinn. Ég vildi ekki bregðast félaginu og því taldi ég mig ekki geta yfirgefið félagið. Svo einfalt er það. Kannski voru þessi fjögur töp í röð ástæðan fyrir því að mér leið eins og ég gæti ekki farið. Man City hefur svo mikla þýðingu fyrir mig. Þetta er níunda tímabil mitt hér og við höfum upplifað svo margt ótrúlegt saman á þessum tíma. Ég hef svo sérstaka tilfinningu fyrir þessu fótboltafélagi og þess vegna er ég svo ánægður með að vera áfram í tvö tímabil til viðbótar,“ sagði Guardiola.
Athugasemdir