Casemiro skoraði dramatískt jöfnunarmark Manchester United í gær gegn Chelsea á Stamford Bridge en leiknum lauk með 1-1 jafntefli.
Chelsea komst yfir seint í leiknum en þá skoraði Jorginho af miklu öryggi af vítapunktinum eftir að Scott McTominay gerðist brotlegur.
Seint í uppbótartímanum átti Luke Shaw góða fyrirgjöf á pönnuna á Casemiro sem átti frábæran skalla sem Kepa varði í stöngina og yfir línuna.
Casemiro byrjaði rólega hjá United og var töluvert á bekknum til að byrja með en núna hefur hann spilað fjóra byrjunarliðsleiki í röð í deildinni og staðið sig frábærlega.
Martin Keown, fyrrverandi leikmaður Arsenal og sérfræðingur hjá BBC hrósaði Brassanum í hástert eftir leikinn.
„Þvílík gæði. Ég held að þetta sé leikmaðurinn sem liðinu hefur vantað í mörg ár. Hann stjórnar öllu á miðjunni. Hann er heilinn í liðinu varnarlega og hann er með góðar sendingar," sagði Keown.
„Hann þefar uppi hættuna. Hann skynjar þegar hlutirnir eru að eiga sér stað. Þú getur sett hann í erfiða stöðu á boltanum en hann leysir hana og finnur sendinguna. Staðsetningarnar hans eru í heimsklassa."
United er í fimmta sæti deildarinnar sem stendur en eftir erfiða byrjun hefur liðið verið að komast á skrið.