Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, viðurkennir að félagið búi ekki yfir þeim fjármunum sem þurfi til að veita bestu félögum Englands raunhæfa samkeppni.
Hann segir að lítið megi bregða útaf í leikmannakaupum félagsins ef það á að eiga möguleika um að berjast um Englandsmeistaratitilinn.
„Ég ber mikla virðingu fyrir þessu félagi og markmiðum þess en á sama tíma veit ég vel að við eigum ekki sömu möguleika og skrímslin sem eru í enska boltanum," sagði Conte og átti þá við hin afar auðugu félög sem eru að berjast á svipuðum slóðum og Tottenham.
„Til að eiga möguleika á að vera samkeppnishæfir þurfum við mikinn tíma til að byggja upp leikmannahópinn og það má ekki gera nein mistök á leikmannamarkaðinum."
Tottenham seldi Steven Bergwijn og Cameron Carter-Vickers í sumar fyrir um 35 milljónir punda og keypti Richarlison, Cristian Romero, Yves Bissouma og Djed Spence fyrir rúmar 130 milljónir.