Landsliðsmaðurinn, Birkir Bjarnason, hjálpaði Adana Demirspor að landa 2-1 sigri á Andrea Pirlo og lærisveinum hans í Karagumruk í tyrknesku deildinni í dag.
Birkir, sem er leikjahæsti leikmaður Íslands frá upphafi, hefur ekki fengið mikið að spila með Adana á þessu tímabili, en hann hafði verið á bekknum hjá liðinu í síðustu þremur deildarleikjum fram að leiknum í dag.
Þegar tæpar fimmtán mínútur voru eftir var staðan 2-1 fyrir Adana og var Birkir fenginn inn til að hjálpa til við að landa sigrinum.
Það hafðist og er Adana nú í 3. sæti deildarinnar með 27 stig, aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Fenerbahce.
Þetta var fimmti leikur Birkis í deildinni á tímabilinu en hann hefur alls spilað 97 mínútur.
Athugasemdir