
Lionel Messi er besti leikmaður heims að mati Vicente Del Bosque, fyrrum þjálfara spænska landsliðsins, en hann viðurkennir einnig að spænska knattspyrnusambandið hafi reynt að sannfæra Messi um að spila fyrir Spán.
Del Bosque þjálfaði spænska landsliðið frá 2008 til 2016, en á þeim tíma vann hann bæði HM og EM.
Áður þjálfaði hann Real Madrid og Besiktas en hann gerði Madrídinga í tvígang að Evrópumeisturum.
Hann hefur nú lagt sitt mat á endalausu umræðuna um það hvor sé betri; Lionel Messi eða Cristiano Ronaldo?
„Besti leikmaður sem ég hef augum barið er Messi. Ef ég þyrfti að velja á milli hans og Cristiano Ronaldo þá myndi ég velja Messi,“ sagði Del Bosque.
„Af öllum þeim leikmönnum sem ég hef kynnst á svo mörgum árum í fótboltanum þá verður Messi fyrir valinu. Það er rosalega áhrifamikið þetta samræmi og gæði hans á vellinum.“
„Hann hefur átt nokkur stórkostleg tímabil og alltaf tekist að leiða sín lið áfram.“
Hann viðurkenndi meira að segja í viðtali við Independent að spænska knattspyrnusambandið reyndi að fá Messi til að spila fyrir Spán, en Messi sveik ekki lit og valdi Argentínu.
„Það var tilraun til að gera það á þeim tíma en hann ákvað að spila fyrir Argentínu og var harður á því,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir