Rafn Markús Vilbergsson þjálfari Njarðvíkinga var ánægður með sögulegan sigur sinna manna gegn nágrönnunum í Keflavík fyrr í kvöld.
Liðin mættust í 16-liða úrslitum og er sigurinn sögulegur vegna þess að Njarðvík hefur aldrei áður komist svona langt í bikarnum.
„Þessi sigur var risastór, hann var alveg feykilega stór. Að komast í 8-liða úrslit er risastórt fyrir okkur og er þetta í fyrsta skipti í sögu félagsins," sagði Rafn Markús að leikslokum, sem aðhyllist fyrst og fremst sterkan og agaðan varnarleik.
„Þetta er okkar leikur og við gerum hann vel. Það er virkilega gott að halda hreinu tvo leiki í röð. Þetta er góður varnarleikur og markvarsla og við förum lítið út fyrir það svo sem."
Toni Tipuric fór meiddur af velli á 64. mínútu og var Rafn svekktur enda hefur Toni verið einn af bestu leikmönnum Njarðvíkinga. Atli Geir Gunnarsson leysti þó vel í skarðið. Rafn hrósaði svo Brynjari Atla Bragasyni fyrir frábæra frammistöðu í markinu. Hann var að láni hjá Víði í Garði í fyrra.
„Brynjar er okkar markmaður og hefur verið hjá okkur síðan hann var smá gutti. Það var partur af þessu í fyrra að fara út í Garð og hann stóð sig vel þar, var held ég besti maður Víðis í fyrra. Hann kemur öflugur til okkar í ár og hefur spilað nokkra leiki feykivel."
Athugasemdir