
Enzo Fernandez var einn af bestu leikmönnum heimsmeistaramótsins í Katar. Hann stjórnaði miðjuspili Argentínu sem stóð uppi sem sigurvegari og hampaði heimsmeistaratitli eftir rúma 30 ára bið.
Mikill áhugi hefur vaknað á Fernandez í kjölfarið og hafa nokkur af stærstu félögum Evrópu verið orðuð við hann.
Fernandez er 21 árs miðjumaður Benfica sem kom upp í gegnum akademíu River Plate og gerði frábæra hluti með aðalliðinu áður en hann var fenginn til Evrópu.
Benfica borgaði tæpar 20 milljónir evra fyrir Fernandez en River Plate heldur 25% endursölurétti og getur því hagnast vænlega á miðjumanninum hæfileikaríka sem getur einnig leikið úti á kanti.
Chelsea, Liverpool og Manchester United eru meðal félaga sem eru sögð vilja krækja í Fernandez en leikmaðurinn sjálfur segist ekkert vera að spá í því.
„Ég veit ekkert um tilboð eða samningsmál. Umboðsmaðurinn sér alfarið um það. Ég vil ekki hugsa um þannig hluti og leyfa þeim að hafa áhrif á mig. Ég er bara að hugsa um að gera vel með Benfica. Við eigum leik á föstudaginn," sagði Fernandez.
Talið er að Benfica muni hafna öllum tilboðum í Fernandez. Afar hávær orðrómur er uppi um að riftunarákvæði í samningi hans við Benfica hljóði upp á rúmar 120 milljónir evra og er Chelsea sagt vera reiðubúið til að borga þá upphæð.