City vill Wirtz - Lookman orðaður við Newcastle og Man Utd - White gæti snúið aftur í landsliðið
   mið 28. desember 2022 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Marcus Rashford að spila vel en segja þörf á framherja
Martial og Rashford skoruðu báðir í gær. Rashford lagði upp annað markið á Martial eftir að hafa skorað sjálfur eftir hornspyrnu Christian Eriksen.
Martial og Rashford skoruðu báðir í gær. Rashford lagði upp annað markið á Martial eftir að hafa skorað sjálfur eftir hornspyrnu Christian Eriksen.
Mynd: EPA
Marcus Rashford hefur byrjað vel eftir HM hlé, skoraði bæði gegn Burnley í deildabikarnum og gegn Nottingham Forest í gær. Hann var einn af lykilmönnunum í sigrinum í gær en sérfræðingarnir og fyrrum framherjarnir, Alan Shearer og Michael Owen, segja að United þurfi að fá inn 'níu' til að ná því allra besta fram úr Rashford.

Anthony Martial er fyrsti kostur Man Utd í framherjastöðuna í dag. Rashford lék úti á vængnum, aðeins aftar á vellinum og gat valdið usla með hraða sínum.

„Hann lítur betur út og virðist vera að njóta sín meira í stöðunni sem við sáum hann spila í kvöld. Hann er með talsvert frelsi til að gera það sem hann vill. Ef hann vill vera fyrir miðju þá fær hann stundum tækifæri til þess," sagði Shearer eftir leikinn í gær.

„Þegar hann fær allt plássið úti á vængjunum þá er það hans besta staða, hann er mjög góður í henni. Hann sem fremsti maður fyrir miðju, hann vantar drápseðlið, þennan náttúrulega hæfileika til að vera réttur maður á réttum stað í teignum. Varðandi gæði hans, þá er enginn vafi. Hann er stórkostlegur leikmaður," bætti Shearer við.

„Mér finnst Rashford betri á vinstri vængnum, hann mun koma að slatta af mörkum á hverju tímabili þar. En hann mun ekki verða Ruud van Nistelrooy eða Robin van Persie, eða Wayne Rooney sem skorar 30+ mörk á tímabili. Augljóslega er hann mjög verðmætur fyrir félagið, kemur með marga góða hluti eins og hraða og beinskeitni," sagði Owen.

Shearer segir að United þurfi að taka inn framherja, eitthvað sem stjórinn Erik ten Hag hefur talað um að hann vanti í leikmannahópinn.

„Ég myndi klárlega fara á markaðinn og skoða hvort ég geti ekki fundið framherja. En það er auðveldara sagt en gert því mörg lið eru að leita að leikmanni sem getur skorað 25 mörk á tímabili," sagði Shearer.

„Rashford gæti skorað fimmtán í deildinni og yfir tuttugu í öllum keppnum. En mér finnst Manchester United þurfa 'níu'- hvort sem það er Martial eða annar leikmaður," sagði Owen.
Athugasemdir
banner
banner