
Franski sóknarmaðurinn Karim Benzema er talinn einn af bestu sóknarmönnum heims en hann missti af útsláttarkeppni heimsmeistaramótsins með Frakklandi.
Benzema lagði landsliðsskóna á hilluna eftir HM en gæti hætt við að hætta ef Zinedine Zidane verður ráðinn sem nýr landsliðsþjálfari.
Benzema var í landsliðshópi Frakka fyrir mót en meiddist og var því sendur heim. Hann hefði getað tekið þátt í útsláttarkeppninni en Didier Deschamps þjálfari kaus að halda áfram að nota sama leikmannahóp og fór í gegnum riðlakeppnina.
Karim Djaziri, umboðsmaður Benzema, er ekki ánægður með þessa ákvörðun Deschamps.
„Ég ræddi við þrjá sérfræðinga sem staðfestu að Karim Benzema var klár í slaginn fyrir 8-liða úrslitin. Hann hefði allavega getað verið á bekknum!" skrifaði Djaziri á Twitter. „Af hverju var hann sendur heim svo fljótt?"
Deschamps kallaði ekki upp neinn leikmann í stað Benzema og voru orðrómar uppi um að hann myndi spila í undanúrslitunum eða úrslitunum, en það reyndist ekkert til í þeim.
Frakkland tapaði úrslitaleik HM eftir vítaspyrnukeppni gegn Lionel Messi og félögum í Argentínu.