Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 29. desember 2022 10:30
Ívan Guðjón Baldursson
Pep: Gætum ekki spilað svona án Rico
Rico Lewis.
Rico Lewis.
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Pep Guardiola ræddi um Jack Grealish og Rico Lewis eftir 1-3 sigur Manchester City gegn Leeds United í gær.


Grealish hefur átt erfitt með að skora hjá Man City og klúðraði tveimur góðum færum í fyrri hálfleik en bætti upp fyrir það með flottum stoðsendingum fyrir Erling Haaland eftir leikhlé.

„Grealish gaf tvær frábærar stoðsendingar og var góður á boltanum. Það er mikilvægt að hafa hann og Riyad (Mahrez) sem geta hangið á boltanum og gefið okkur rétt tempó. Auðvitað er mikilvægt að skora mörk en þetta er bara sálfræðilegt hjá honum. Jack sýnir á æfingum að hann kann að klára færi, hann þarf bara að koma hausnum á réttan stað og öðlast meira sjálfstraust fyrir framan markið. Þegar það gerist mun hann raða inn mörkunum," sagði Pep, sem sneri sér svo að bakverðinum efnilega Lewis, sem hélt bæði Kyle Walker og Joao Cancelo á bekknum. Rico er 18 ára og lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik í ensku úrvalsdeildinni.

„Við hefðum ekki getað spilað eins og við gerðum í dag án Rico. Hann er ótrúlega gáfaður varnarlega og les leikinn gífurlega vel. Hann er að spila virkilega, virkilega vel og er í baráttu um sæti í liðinu. Skilningurinn sem hann hefur með Rodri er magnaður."

Man City komst í þriggja marka forystu áður en Leeds byrjaði að svara fyrir sig. City var með algjöra stjórn í fyrri hálfleik, þar sem Leeds átti ekki eitt einasta marktækifæri, en tókst ekki að skora fyrr en í uppbótartíma.

„Mér fannst seinni hálfleikurinn vera erfiðari en sá fyrri en ég er stoltur af strákunum að hafa farið héðan með sigur. Þetta er erfiður útivöllur þar sem stórlið hafa lent í talsverðum erfiðleikum.

„Við spiluðum virkilega vel. Ég var ekki viss hvernig fyrstu leikirnir eftir HM yrðu en strákarnir eru augljóslega klárir í slaginn."


Athugasemdir
banner
banner