Franski kantmaðurinn Ousmane Dembele ætlar að vera áfram hjá Barcelona og klára tímabilið þar, þrátt fyrir að félagið sé meira en til í að losna við hann.
Dembele hefur verið orðaður við Paris Saint-Germain og Chelsea í dag. Joan Laporta, forseti Barcelona, sagði að hann væri með tilboð frá Englandi og það væri undir honum komið að samþykkja það.
Dembele ætlar hins vegar ekki að fara neitt. Hann ætlar að taka stöðuna betur í sumar og fara þá frítt.
Samningur hans rennur út í sumar og hann hefur hingað til hafnað öllum samningstilboðum Börsunga. Launakröfur hans eru mjög háar.
Hinn 24 ára gamli Dembele gekk í raðir Barcelona frá Borussia Dortmund árið 2017 fyrir 135 milljónir evra. Hann hefur ekki staðið undir væntingum og verið mikið meiddur. Þrátt fyrir það vill hann fá mikla launahækkun hjá Börsungum.
Barcelona virðist vera að landa sóknarmanninum Pierre-Emerick Aubameyang, jafnvel þó svo að Dembele verði áfram.
Í BEINNI - Gluggadagskvaktin

Athugasemdir