Mikel Arteta, stjóri Arsenal, segir að liðið geti enn bætt ýmsa hluti í leik sínum þrátt fyrir góðan 4-2 sigur á Brighton í dag.
Lærisveinar Arteta áttu marga góða kafla í leiknum gegn Brighton en liðið var komið í þriggja marka forystu snemma í síðari hálfleik.
Brighton komst inn í leikinn og náði að veita toppliðinu alvöru leik en Arsenal tókst að knýja fram sigur.
„Þetta var mjög erfiður andstæðingur. Við þurftum að eiga risa frammistöðu til að vinna gegn mjög góðu liði Brighton og mér fannst við gera það. Við þurftum að leggja mikið í þetta,“ sagði Arteta.
„Þeir ná að ráða yfir mörgum köflum í spilinu. Þeir gerðu marga hluti en við gerðum marga hluti vel í dag til þess að eiga skilið sigurinn.“
Norski fyrirliðinn Martin Ödegaard er búinn að vera óaðfinnanlegur á þessari leiktíð. Hann skoraði og lagði upp í kvöld en Arteta er ánægður með kappann.
„Martin Ödegaard átti nokkur stór augnablik. Hann framkvæmir hluti á réttum augnablikum.“
Manchester City gerði 1-1 jafntefli við Everton fyrr í dag og gaf það Arsenal tækifæri á því að ná sjö stiga forystu á toppnum, en sú forysta hefur enga þýðingu fyrir Arteta.
„Við vissum hvernig leikur Man City fór en það sem hjálpaði var að við þurftum að koma hingað og vinna og til þess að gera það þurfum við að spila á hæsta stigi deildarinnar. Þessi sjö stiga forysta hefur enga þýðingu því einbeiting okkar er bara á að bæta okkur,“ sagði Arteta í lokin.
Athugasemdir