Marcus Rashford var hetja Manchester United í 1-0 sigri liðsins á Wolves í dag en hann byrjaði á bekknum.
Það vakti athygli þegar kom í ljós að Rashford væri á bekknum en Erik ten Hag stjóri liðsins staðfesti að hann væri í agabanni. Hann hefur nú skorað sex mörk í síðustu átta leikjum með United og enska landsliðinu.
Eftir markalausan fyrri hálfleik þurfti Ten Hag á Rashford að halda og hann kom inn á strax í hálfleik og skoraði sigurmarkið.
Luke Shaw sem hefur spilað í miðverði í síðustu tveimur leikjum segir að Rashford sé í heimsklassa.
„Hann er á mjög góðu róli þessa stundina, með mjög mikið sjálfstraust og mjög jákvæður. Hann er í heimsklassa og hann gæti orðið einn af bestu leikmönnum heims ef hann heldur svona áfram," sagði Shaw eftir leikinn.