Evan Ferguson, framherji Brighton, er yngsti markaskorari félagsins í efstu deild en hann gerði annað mark liðsins í 4-2 tapi gegn Arsenal á Amex-leikvanginum í kvöld.
Ferguson, sem er aðeins 18 ára gamall, spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið á síðasta tímabili, en fyrstu mörk hans með liðinu hafa komið á þessari leiktíð.
Hann skoraði í enska deildabikarnum fyrr á tímabilinu og í kvöld kom fyrsta deildarmarkið.
Lewis Dunk átti þá langa sendingu fram völlinn og fór Ferguson í harða baráttu við William Saliba sem endaði með því að framherjinn hristi þann franska af sér áður en hann skoraði framhjá Aaron Ramsdale í markinu.
Ferguson varð um leið yngsti markaskorari Brighton í efstu deild en hann er 18 ára og 73 daga gamall. Mark hans fylgir með fréttinni.
Sjáðu markið hér
Athugasemdir