Stefán Þór Pálsson hefur samið við Víking R. en þetta staðfesti Milos Milojevic annar af þjálfurum liðsins í samtali við Fótbolta.net í dag.
Stefán er 19 ára sóknarleikmaður sem lék með KA á liðnu tímabili og skoraði þar fimm mörk í 19 leikjum í 1. deildinni.
Árið á undan skoraði hann 12 mörk í 23 leikjum fyrir Grindavík í deild og bikar. Hann lék þrjá leiki með Breiðabliki í Pepsi-deildinni 2012 eftir að hafa komið til Blika frá uppeldisfélagi sínu ÍR.
Víkingar eru einnig að ganga frá samningi við Kristófer Pál Viðarsson en hann kemur til félagsins frá Leikni Fáskrúðsfirði.
Kristófer Páll er fæddur árið 1997 en hann fór á kostum í 3. deildinni í sumar þar sem hann skoraði 14 mörk í 10 leikjum.
Ekkert verður hins vegar af því að Elvar Ingi Vignisson komi til Víkings frá Aftureldingu eins og útlit var fyrir.
Athugasemdir