Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
banner
   þri 13. janúar 2015 20:22
Alexander Freyr Tamimi
Fótbolta.net mótið: Atli Viðar með þrennu í stórsigri á Þrótti
Atli Viðar skoraði þrennu gegn Þrótti
Atli Viðar skoraði þrennu gegn Þrótti
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Þróttur R. 0 - 7 FH
0-1 Karl Brynjar Björnsson ('6, sjálfsmark)
0-2 Jeremy Serwy ('10)
0-3 Atli Viðar Björnsson ('12)
0-4 Atli Viðar Björnsson ('33)
0-5 Emil Pálsson ('50)
0-6 Atli Viðar Björnsson ('59)
0-7 Steven Lennon ('84)
1-7 Dion ('86)

FH-ingar slátruðu Þrótti þegar liðin mættust í Riðli 1 í A-deild Fótbolta.net mótsins í kvöld.

Atli Viðar Björnsson var fremstur meðal jafninga hjá FH og skoraði þrennu.

Óhætt er að segja að Hafnfirðingar hafi byrjað leikinn mun betur, en eftir 12 mínútur var staðan orðin 3-0. Karl Brynjar Björnsson byrjaði á að skora sjálfsmark og skömmu síðar skoraði hinn belgíski Jeremy Serwy stórkostlegt aukaspyrnumark, alveg upp í skeytin. Þetta var keimlíkt markinu sem hann skoraði gegn Blikum á Fótbolta.net mótinu á laugardag.

Atli Viðar Björnsson kom svo FH í 3-0 og 4-0 fyrir leikhlé, í báðum tilfellum eftir undirbúning frá Jonathan Hendrickx. Var staðan 4-0 fyrir FH í leikhléi.

Þeir Emil Pálsson og Atli Viðar bættu svo við mörkum tiltölulega snemma í fyrri hálfleik og var Dalvíkingurinn nú búinn að fullkomna þrennuna.

Á 84. mínútu kom Steven Lennon svo FH-ingum í 7-0 áður en Bandaríkjamaðurinn Dion, sem Þróttur er að skoða, klóraði í bakkann.

Lokatölur frábær 7-1 sigur FH, sem er nú komið með 3 stig eftir tvo leiki á meðan Þróttur er enn án stiga.

Smelltu hér til að skoða textalýsingu leiksins
Athugasemdir
banner
banner
banner